Myrti eiginkonu sína í brúðkaupsferðinni

Hjónin voru í brúkaupsferð á einkaeyjunni Turtle Island.
Hjónin voru í brúkaupsferð á einkaeyjunni Turtle Island. Getty images

Fjörtíu ára karlmaður frá Tennessee-fylki í Bandaríkjunum hefur verið sakfelldur fyrir að myrða eiginkonu sína í brúðkaupsferð þeirra árið 2022. Þetta er niðurstaða dómara á Fídjí í Suður-Kyrrahafi. 

Bandaríska fréttaveitan ABC greinir frá. 

Maðurinn heitir Bradley Robert Dawson. Hann fór ásamt eiginkonu sinni Christe Chen, sem þá var 36 ára, í brúkaupsferð á einkaeyjuna Turtle Island, sem er hluti af Yasawa-eyjaklasanum, árið 2022.

Tveimur dögum eftir komuna myrti Dawson eiginkonu sína og flúði á kajak til nærliggjandi eyju. Chen fannst látin af starfsfólki hótelsins.

Dawson hefur haldið fram sakleysi sínu.

Líkið illa farið

Við mat sitt leit dómari til þess að Dawson var með vegabréf sitt og aðrar eigur meðferðis þegar hann var handtekinn. Dómaranum þótti það benda til þess að hann hafi ætlað að flýja. Að mati dómarans benti ekkert til þess nema að Dawson hafi verið einn að verki.

Árið 2022 sagði lögfræðingur foreldra Chen að lík dóttur þeirra væri svo illa farið að ekki væri hægt að flytja það til Bandaríkjanna. Líkamsleifar Chen voru því brenndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert