Óttast stórfellt umhverfisslys í Svartahafi

Annað skipanna klofnaði í tvennt.
Annað skipanna klofnaði í tvennt. Skjáskot úr myndbandi

Rússar segja að svartolía hafi lekið í Kerch-sund á Svartahafi undan strönd Krímskaga eftir að tvö olíuflutningaskip lentu í miklum sjávarháska.

Annað skipanna klofnaði í tvennt og sökk en hitt skemmdist mikið og strandaði. Rússnesk stjórnvöld sega að einn áhafnarmeðlimur hafi látist úr ofkælingu en alls björguðust 26 úr skipunum tveimur.

Alls voru 9.200 tonn af svartolíu í skipunum tveimur að því er ríkisrekna fréttastofan TASS greinir frá en ekki hefur komið fram hversu mikið magn að olíunni lak úr þeim.

Umhverfisráðuneyti Úkraínu segir að lekinn hefði verið verulegur og óttast stórfellt umhverfisslys í Svartahafi sem gæti haft hörmulegar afleiðingar fyrir lífríki hafsins. Það sakar Rússa um að hafa ekki farið að reglum um siglingaöryggi.

Rússneskir fjölmiðlar segja að skipin, Volgoneft-212 og Volgoneft-239, séu meira en 50 ára gömul.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert