Meðlimir ástralska fíkniefnahringsins Bali Nine eru ánægðir með að vera komnir heim til Ástralíu eftir að hafa dvalið í 19 ár í fangelsi í Indónesíu. Mennirnir sneru heim í gær.
Indónesíska lögreglan handtók níu Ástrala árið 2005 og sakfelldi þá fyrir að hafa reynt að smygla meira en átta kílóum af heróíni frá eyjunni Balí. Málið vakti heimsathygli á sínum tíma vegna strangrar fíkniefnalöggjafar í Indónesíu.
Allir meðlimir hópsins hlutu þunga dóma. Höfuðpaurar hópsins voru teknir af lífi árið 2015, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir frá áströlskum stjórnvöldum um að þeir fengju að lifa. Einn meðlimur hópsins lést í fangelsi árið 2018 og einu konunni í hópnum var sleppt úr fangelsi árið 2018 eftir að dómur hennar var mildaður.
Yfirvöld í Ástralíu hafa lengi barist fyrir því að fá mennina fimm heim. Í gær varð það að veruleika vegna samkomulags milli ríkjanna. Mennirnir munu ekki þurfa að afplána frekari fangelsisvist í Ástralíu.
Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, greindi frá samkomulaginu í gær. Hann þakkaði Prabowo Subianto, forseta Indónesíu, fyrir samstarfið.
„Þessir Ástralar eyddu meira en 19 árum í fangelsi í Indónesíu. Það var kominn tími fyrir þá að koma heim,“ sagði Albanese.
Í yfirlýsingu sem var gefin út fyrir hönd fimmmenninganna segir: „Mönnunum fimm er létt og þeir eru ánægðir að vera komnir aftur til Ástralíu.“
Þá hlakki þeir til að leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Í yfirlýsingunni þakka þeir jafnframt Prabowo Subianto, forseta Indónesíu, fyrir að leyfa þeim að snúa heim. Einnig hafi stuðningur frá vinum, fjölskyldu, lögfræðingum og embættismönnum verið „nauðsynlegur og ómetanlegur“.