Þakklátir og ánægðir með heimkomuna

Á myndinni má sjá fimmmenningana sem hafa dvalið í fangelsi …
Á myndinni má sjá fimmmenningana sem hafa dvalið í fangelsi í 19 ár. Frá vinstri: Martin Eric Stephens, Michael William Czugaj, Scott Anthony Rush, Mathew James Norman og Si Yi Chen. Myndin var tekin í gær þegar fulltrúar Indónesíu og Ástralíu rituðu undir samkomulag um að mennirnir fengju að fara heim til Ástralíu. AFP

Meðlim­ir ástr­alska fíkni­efna­hrings­ins Bali Nine eru ánægðir með að vera komnir heim til Ástralíu eftir að hafa dvalið í 19 ár í fangelsi í Indó­nes­íu. Mennirnir sneru heim í gær.

Indó­nes­íska lög­regl­an hand­tók níu Ástr­ala árið 2005 og sak­felldi þá fyr­ir að hafa reynt að smygla meira en átta kíló­um af heróíni frá eyj­unni Balí. Málið vakti heims­at­hygli á sín­um tíma vegna strangr­ar fíkni­efna­lög­gjaf­ar í Indó­nes­íu.

Allir meðlimir hópsins hlutu þunga dóma. Höfuðpaur­ar hópsins voru teknir af lífi árið 2015, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir frá áströlskum stjórnvöldum um að þeir fengju að lifa. Einn meðlimur hópsins lést í fangelsi árið 2018 og einu konunni í hópnum var sleppt úr fangelsi árið 2018 eftir að dómur hennar var mildaður.

Meðlimir Bali Nine voru handteknir árið 2005. Efri röð frá …
Meðlimir Bali Nine voru handteknir árið 2005. Efri röð frá vinstri: Myur­an Sukumar­an, Scott Rush, Tach Duc Thanh Nguyen og Renae Lawrence. Neðri röð frá vinstri: Si Yi Chen, Matt­hew Norm­an, Michael Czugaj, Mart­in Stephen og Andrew Chan AFP/​Jewel Samada

Yfirvöld í Ástralíu hafa lengi barist fyrir því að fá mennina fimm heim. Í gær varð það að veruleika vegna samkomulags milli ríkjanna. Mennirnir munu ekki þurfa að afplána frekari fangelsisvist í Ástralíu.

Ant­hony Al­banese, for­sæt­is­ráðherra Ástr­al­íu, greindi frá samkomulaginu í gær. Hann þakkaði Pra­bowo Su­bianto, for­seta Indó­nes­íu, fyr­ir sam­starfið. 

„Þess­ir Ástr­al­ar eyddu meira en 19 árum í fang­elsi í Indó­nes­íu. Það var kom­inn tími fyr­ir þá að koma heim,“ sagði Al­banese.

Í þessu fangelsi í Indónesíu dvöldu mennirnir.
Í þessu fangelsi í Indónesíu dvöldu mennirnir. AFP/Sonny Tumbelaka

Þakka forseta Indónesíu

Í yfirlýsingu sem var gefin út fyrir hönd fimmmenninganna segir: „Mönnunum fimm er létt og þeir eru ánægðir að vera komnir aftur til Ástralíu.“ 

Þá hlakki þeir til að leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Í yfirlýsingunni þakka þeir jafnframt Prabowo Subianto, forseta Indónesíu, fyrir að leyfa þeim að snúa heim. Einnig hafi stuðningur frá vinum, fjölskyldu, lögfræðingum og embættismönnum verið „nauðsynlegur og ómetanlegur“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert