Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, er í kröppum dansi innan eigin flokks og sumir telja að dagar ríkisstjórnar hans séu taldir. Ef gengið yrði til kosninga bendir allt til þess að Íhaldsflokkurinn undir forystu Pierre Poilievre myndi vinna stórsigur.
Chrystia Freeland, fjármála- og varaforsætisráðherra Kanada, sagði af sér í óvæntri tilkynningu í gær vegna ágreinings við Trudeau. Hún hefur staðið við hlið hans í tæpan áratug en þau áttu ekki samleið með það hvernig Kanada ætti að bregðast við ógninni af mögulegu tollastríði við Bandaríkin.
Í gærkvöldi tapaði Frjálslyndi flokkurinn svo þingsæti í aukakosningu í Bresku Kólumbíu og þar með hefur flokkurinn tapað fjórum aukakosningum á árinu.
Wayne Long, þingmaður Frjálslynda flokksins, segir að 40-50 þingmenn í þingflokknum, sem telur alls 153 þingmenn, vilji að Trudeau segi af sér.
Hann segir að um 50 þingmenn standi þétt við bakið á Trudeau en restin af þingflokknum gefi lítið upp um það hvað þeir vilji að hann geri.
Ýmis mál hafa plagað stjórnina og þar má meðal annars nefna stöðuna á húsnæðismarkaði og skuldasöfnun ríkissjóðs.
Samkvæmt könnunum þá nýtur Frjálslyndi flokkurinn aðeins um 23% fylgis á sama tíma og Íhaldsflokkurinn mælist með um 43% fylgi undir forystu nýja formannsins, Pierre Poilievre.
Á blaðamannafundi í gær sagði Poilievre að Trudeau væri veikburða og aumkunarverður forsætisráðherra og að gærdagurinn hefði verið trúðasýning.
Trudeau hefur heitið því að leiða Frjálslynda flokkinn í næstu kosningum sem eru áætlaðar í október 2025, en álitsgjafar segja að þær gætu orðið mun fyrr.
„Hann hefur þegar tekið mörg högg en í þetta sinn er í raun erfitt að líta ekki á það sem banvænt högg,“ sagði Frederic Boily, prófessor við háskólann í Alberta, í samtali við AFP fréttastofuna.