Drónarnir ógna ekki þjóðaröryggi

Bandarísk yfirvöld segja að drónarnir sem hafi sést séu af …
Bandarísk yfirvöld segja að drónarnir sem hafi sést séu af ýmsum toga. Þau hafna því að þetta sé eitthvað sem ógni öryggi landsmanna. Myndin er úr safni. AFP

Bandarísk yfirvöld segja að hvorki þjóðaröryggi né öryggi almennra borgara sé ógnað af flugi dróna sem hafa sést víða í Bandaríkjunum að undanförnu.

Íbúar í norðausturhluta Bandaríkjanna hafa tilkynnt ítrekað um flug dróna sem hafa þótt ansi grunsamlegir. Margir hafa velt vöngum yfir því hvort um erlenda dróna sé að ræða auk þess sem bandarísk yfirvöld hafa verið sökuð um yfirhylmingu. 

Sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu

„Við höfum ekki tekið eftir neinu óvenjulegu og metum ekki þessi atvik sem ógn við þjóðaröryggi eða öryggi almennings yfir lofthelginni í New Jersey eða öðrum ríkjum í norðausturhlutanum,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu frá heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna, varnarmálaráðuneytinu, bandarísku alríkislögreglunni og flugmálayfirvöldum.

„Eftir að hafa farið nákvæmlega yfir tæknilegar upplýsingar og ábendingar frá áhyggjufullum borgurum, þá metum við það sem svo að það sem hefur sést sé blanda af löglegum drónum í atvinnuskyni, drónum áhugafólks og drónum sem löggæsluyfirvöld nota, sem og mannaðar flugvélar, þyrlur og stjörnur sem fólk hefur talið vera dróna fyrir mistök,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, lét þau ummæli falla í …
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, lét þau ummæli falla í gær að bandarísk stjórnvöld vissu hvað væri í gangi og gaf í skyn að þau hefðu eitthvað að fela. AFP

Hafna því að erlend ríki tengist málinu

Stofnanirnar fjórar hafa þegar hafnað því að erlendir aðilar tengist málinu, en því hefur m.a. verið fleygt fram að drónarnir eigi upptök sín til íransks eða kínversks skips sem sigli úti á hafi.

Þrátt fyrir þetta heldur fólk áfram að birta myndskeið á samfélagsmiðlum af drónum á flugi, m.a. í New York-ríki, New Jersey, Maryland og í Viringínu.

Í gær sagði Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, að bandarísk yfirvöld viti hvað sé að gerast. Hann gaf í skyn að ríkið hefði eitthvað að fela. Því hafnaði Joe Biden, fráfarandi Bandaríkjaforseti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert