Flóar dönsku geðsjúkrahúsi heitt

Héraðssjúkrahúsið í Randers hefur átt undir högg að sækja hjá …
Héraðssjúkrahúsið í Randers hefur átt undir högg að sækja hjá eftirlitsaðilum vegna umdeilds yfirlæknis sem var rekinn í vor auk djúpstæðs ágreinings lækna um meðferð hættulegra sjúklinga. Ljósmynd/Geðsjúkrahús Mið-Jótlands

Möguleikar unglækna á að ráðfæra sig við eldri lækna og reyndari eru af skornum skammti, þekkingu starfsfólks á leiðarvísi um sjálfsvígsáhættu er stórlega ábótavant og afleysingafólk skortir aðgang að sjúkraskrám.

Framangreind atriði eru aðeins fáein þeirra sem ný skýrsla umboðsmanns sjúklinga í Danmörku, Styrelsen for Patientsikkerhed, um stöðu mála á Héraðsgeðsjúkrahúsinu í Randers, teflir fram til rökstuðnings þeirrar niðurstöðu að ástandið á stofnuninni sé fyrir neðan allar hellur.

Yfirlæknir kærður til lögreglu

Er það ekki í fyrsta sinnið sem sjúkrahúsið er til umfjöllunar í dönskum fjölmiðlum fyrir sleifarlag, jafnvel afbrot, stjórnenda þar, en ekki er lengra síðan en í vor að umdeildur geðlæknir þar gerður brottrækur úr starfi fyrir samskipti við sjúklinga sína sem mörg hver töldust hvergi samræmast fagkröfum heilbrigðiskerfisins, eftir því sem Jakob Paludan, forstöðumaður læknisfræðilegra fagmála hjá Geðsjúkrahúsi Mið-Jótlands, sem sjúkrahúsið í Randers heyrir undir, greindi danska ríkisútvarpinu DR frá í viðtali í nóvember.

Hafi færslur yfirlæknisins í sjúkraskrár sjúklinga sinna vikið svo mjög frá gildandi verklagsreglum um slíkar færslur að stjórn sjúkrahússins sá ástæðu til að kæra hann til lögreglu og er mál hans nú til rannsóknar þar.

Vegna ýmissa atvika sem tengjast máli geðlæknisins ákvað umboðsmaður sjúklinga að gera úttekt á starfseminni og birtist niðurstaða þeirrar úttektar í skýrslunni nýútkomnu.

Eftir því sem Paludan segir DR í dag kom ákvörðun umboðsmanns lítið á óvart. „Marga anga málsins hefur okkur verið kunnugt um lengi vel og við eigum eftir að vinna með þá lengi vel,“ segir Paludan og er spurður hvers vegna löngu þekkt vandamál hafi þá ekki verið leyst.

„Þarna eru á ferð mjög stór og umfangsmikil vandamál. Verið er að endurskipuleggja legudeildina hjá okkur og það tekur tíma,“ svarar forstöðumaðurinn og vísar til vinnu sem nú stendur yfir á legudeild C sem hefur einmitt verið rót stærsta hluta þess vanda sem sjúkrahúsið í Randers hefur staðið frammi fyrir.

Djúpstæður ágreiningur um meðferð

Vandinn snýr þó ekki einungis að geðlæknisfræðilegum fagmálum. Árið 2023 heimsótti danska vinnueftirlitið legudeild C í Randers fimm sinnum vegna starfsumhverfistengdra mála og þá ekki slíkra er tengjast biluðum loftræstingum, myglu eða leka.

Var þar um að tefla djúpstæðan ágreining lækna deildarinnar um meðhöndlun hættulegra sjúklinga en meðal annars lagði amma eins sjúklinga deildarinnar fram stjórnsýslukæru á hendur sjúkrahúsinu og krafðist bóta fyrir hönd barnabarns síns fyrir þá meðferð er það hlaut á deildinni.

„Fjöldi fræðilegra ágreiningsmála meðal stjórnenda er enn óleystur og snúast mörg þeirra um skiptar skoðanir um yfirlækninn fyrrverandi. Þeir [stjórnendurnir] hyggjast nú setjast á rökstóla um hvaða væntingar þeim er réttmætt að gera hver til annars og skapa sér örugga umgjörð um þá fundi,“ segir í skýrslu umboðsmanns sjúklinga.

Ítrekuð vanræksla og hirðuleysi

Nokkrar vikur eru síðan umboðsmaður veitti yfirlækninum fyrrverandi það í danskri stjórnsýslu kallast „fagligt påbud“ og er eins konar leiðbeinandi kvöð um verklag innan fagsviða í kjölfar ófullnægjandi eða rangs verklags. Hefur kvöðin stoð í úttekt óháðs prófessors í læknisfræði á tíu sjúkraskrárfærslum yfirlæknisins brottrekna sem prófessorinn skrifaði meðal annars í niðurstöðu sinni að lýstu „ítrekaðri vanrækslu og hirðuleysi“.

Ákvað umboðsmaður, á grundvelli úttektar prófessorsins, að kanna vinnubrögð yfirlæknisins fyrrverandi enn frekar og, í ljósi útkomu þeirrar könnunar, taka afstöðu til þess hvort tilefni gefist til frekari viðurlaga vegna vanrækslu hans á starfsskyldum sínum við sjúkrahúsið í Randers.

DR
DR-II (yfirlæknirinn kærður til lögreglu)
DR-III (leiðbeinandi kvöð umboðsmanns)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert