Yfirvöld í bænum Anapa í Rússlandi, sem liggur við Svartahaf, hafa lýst yfir neyðarástandi vegna olíuleka. Olían lekur úr tveimur skemmdum olíuflutningaskipum og hefur skolað upp á land.
Skipin skemmdust í aftakaveðri á sunnudaginn. Annað þeirra sökk eftir að hafa klofnað í tvennt á meðan hitt skipið skemmdist mjög mikið og strandaði.
Einn skipverji lést af völdum ofkælingar en 26 var komið til bjargar að sögn rússneskra stjórnvalda.
Bæjarstjórn Anapa birti tilkynningu á Telegram þar sem greint er frá stöðu málsins og að lýst hafi verið yfir neyðarástandi. Tekið er fram að hreinsunarstarf sé þegar hafið.
Um 90.000 manns búa í bænum sem er í suðurhluta Krasnodar-héraðs, sem er skammt frá Krímskaga.
Ráðherra almannavarna á svæðinu segir að um 30 km langur kafli strandlengjunnar sé nú þakinn olíu.
Um 400 viðbragðsaðilar hafa verið sendir á vettvang til að taka þátt í hreinsunarstarfinu.