Kona á fimmtugsaldri í Ski í Noregi, suður af höfuðborginni Ósló, hefur til bráðabirgða verið vistuð á heilbrigðisstofnun vegna andlegs ástands hennar í kjölfar þess er hún var handtekin á heimili sínu, aldraðrar móður sinnar og rúmlega fertugs bróður undir kvöld á laugardaginn þar sem mæðginin lágu örend er lögregla kom á vettvang.
Liggur konan undir grun um að hafa myrt móður sína og bróður á heimili fjölskyldunnar. Hefur hún játað sök í málinu og greint lögreglu frá rás atburða á laugardaginn.
„Grunaða hefur gert grein fyrir þeirri orsök er lá að baki verknaðinum,“ segir Sigrid Fagerli ákæruvaldsfulltrúi lögreglu við norska ríkisútvarpið NRK.
Gekkst grunaða undir bráðabirgðageðmat á sunnudaginn sem enn hefur ekki skilað niðurstöðu, en þótti lögreglu ástand hennar þó ekki benda til þess að efni væru til að krefjast gæsluvarðhaldsúrskurðar að svo stöddu.
Hefur NRK aflað sér upplýsinga um að konan handtekna hafi um árabil glímt við andlega vanheilsu, en dagblaðið VG greinir enn fremur frá því að nágranni fjölskyldunnar hafi um árabil haft áhyggjur af gangi mála og fimm eða sex ár séu síðan hann tilkynnti formlega um þær til sveitarfélagsins Nordre-Follo sem Ski tilheyrir.
„Ég hafði áhyggjur af henni,“ segir nágranninn við VG og greinir enn fremur frá því að móður þeirra systkinanna, sem var 74 ára gömul, hafi hann aldrei séð á ferli síðan hann flutti til baka í gamla hverfið sitt árið 2017 og varð nágranni fjölskyldunnar á ný á því sem var hans æskuheimili. Ólst nágranninn því upp með systkinunum. „Þetta er mjög átakanlegt,“ bætir hann við.
Kveðst nágranninn hafa veitt því athygli að hús fjölskyldunnar hafi verið í niðurníðslu er hann flutti til baka. „Við tókum líka eftir því að við sáum aldrei til mannaferða fyrir utan annan soninn sem annað slagið var úti í garði,“ segir hann frá.
Segir hann í framhaldinu af því er hann hafði samband við heilsugæslu sveitarfélagsins þar sem honum var bent á að beina erindi sínu beint til sveitarfélagsins sem hann og hafi gert. „Okkur langaði að ganga úr skugga um að allt væri með felldu. Frá sveitarfélaginu fékk ég bara þau svör að það þekkti til aðstæðnanna, hvað það þýðir veit ég ekki,“ segir nágranninn.
Á skrifstofum Nordre-Follo reyna menn nú að grafa upp gögn um samskipti sveitarfélagsins við fjölskylduna gegnum árin.
„Það er vinna sem við erum að hefja í dag,“ segir Øyvind Henriksen skrifstofustjóri við NRK, „slíkt er mikilvægt að finna út þegar mál sem þetta eru annars vegar, hvers konar samskipti við höfum haft við þessa fjölskyldu, hvort við höfum átt slík samskipti og hvernig þau voru afgreidd,“ segir Henriksen enn fremur.
Fagerli ákæruvaldsfulltrúi kveður lögreglu ekki hafa neitt í sínum skrám sem bendi til afskipta af fjölskyldunni. Þá sé ekki hægt að veita upplýsingar um dánarorsakir hinna myrtu þar sem krufningu sé ekki lokið.
Það var þriðja systkinið, bróðir grunuðu og mannsins sem myrtur var, sem hafði samband við lögreglu á laugardaginn og tilkynnti um harmleikinn.