Manndrápsákærurnar orðnar sjö

Rex Heuermann.
Rex Heuermann. AFP

Meinti raðmorðinginn Rex Heuermann hefur nú verið ákærður fyrir morð á sjö konum en ný ákæra var lögð fram í dag.

Samkvæmt fréttaveitunni AP News hefur Heuermann verið ákærður fyrir að myrða vændiskonuna Valarie Mack, en hlutar af beinagrind hennar fundust fyrst í þorpinu Manorville á Long Island árið 2000.

Tíu árum síðar fundust enn fleiri líkamsleifar af Mack á Gilgo-ströndinni, um 80 kílómetrum austar frá Manorville.

Ekki var hægt að bera kennsl á líkamsleifarnar fyrr en erfðarannsókn var framkvæmd árið 2020 og var þá komist að auðkenni Macks.

Hár dótturinnar tengt morðinu

Fyrr á þessu ári var mennskt hár, sem fannst með líkamsleifum Macks, sent til rannsóknar og var komist að þeirri niðurstöðu að það þótti erfðafræðilega passa við dóttur Heuermanns.

Hún er þó ekki talin hafa komið nálægt morðinu þar sem hún mun hafa verið þriggja til fjögurra ára gömul er morðið átti sér stað.

Auk þess að hafa verið ákærður fyrir morðið á Mack hefur Heuermann einnig verið ákærður fyrir morðin á Amber Lynn Costello, Megan Waterman, Melissa Barthelemy, Maureen Brainard-Barnes, Sandra Costilla og Jessica Taylor.

Sjálfur hefur Heuermann alltaf neitað sök. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert