Öflugur jarðskjálfti í Vanúatú

Margar byggingar eru illa farnar í höfuðborginni Port Vila.
Margar byggingar eru illa farnar í höfuðborginni Port Vila. AFP

Öflugur jarðskjálfti reið yfir Kyrrahafseyjuna Vanúatú og er óttast að margir hafi farist í hamförunum.

Jarðskjálftinn, sem mældist 7,3 stig að stærð, varð á 57 kílómetra dýpi, um 30 kílómetra undan strönd Efate klukkan 12:47 að staðartíma samkvæmt bandarísku jarðfræðistofnuninni.

Í höfuðborginni Port Vila hrundu byggingar og AFP-fréttaveitan hefur eftir vitnum að sjá megi lík á götum borgarinnar. Jarðhæð húss sem hýsir bandaríska, franska og önnur sendiráð lagðist saman og tilkynntu Bandaríkjamenn að sendiráðið verði lokað um sinn.

Jarðskjálftar eru algengir í Vanúatú en um 330 þúsund manns búa í eyríkinu. Flóðbylgjuviðvörun var gefin út í kjölfar skjálftans öfluga en var fljótleg afturkölluð. 

Bandaríska jarðfræðistofnunin segir að fjórir eftirskjálftar sem voru á bilinu 4,7 til 5,5 að stærð hafi riðið nálægt höfuðborginni á fyrstu tveimur klukkutímunum eftir stóra skjálftann.

Jarðskjálftinn mældist 7,3 að stærð.
Jarðskjálftinn mældist 7,3 að stærð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert