Björgunarstarf er hafið á Kyrrahafseyjunni Vanúatú þar sem öflugur jarðskjálfti varð í nótt, en hann mældist 7,3 stig að stærð. Byggingar hafa hrunið og að sögn sjónarvotta liggur fólk fast í rústunum. Þá hafa lík sést.
Skjálftinn varð kl. 12.47 að staðartíma í dag (kl. 01.47 að íslenskum tíma í nótt) á um 57 km dýpi. Hann varð um 30 km frá Efate, sem er stærsta eyja Vanúatú. Eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið, en sá stærsti mældist 5,5 stig.
Í höfuðstaðnum Port Vila hefur orðið mikið tjón á byggingum, m.a. í húsnæði þar sem erlend sendiráð eru með skrifstofur.
Talsmaður bandaríska sendiráðsins á eyjunni segir að allir starfsmenn þess séu heilir á húfi.
„Það er fólk inni í byggingunum í bænum. Það lágu lík þarna þegar við gengum fram hjá,“ segir íbúinn Michael Thompson í samtali við AFP-fréttaveituna, en hann hafði þá birt ljósmyndir á samfélagsmiðlum sem sýndu eyðilegginguna.
Þá varð rúta fyrir skriðu sem féll við veg í borginni. Thompson telur líklegt að þar hafi fólk farist.
Hann segir enn fremur að skjálftinn stóri hafi a.m.k. eyðilagt tvær brýr og skemmt fleiri byggingar.
Hann segir að jarðhæð sendiráðsbyggingarinnar sé horfin. „Hún er algjörlega flöt. Efstu þrjár hæðirnar standa þó enn, en hafa lækkað.“
„Ef það var fólk þarna inni þá eru þau farin,“ bætir Thompson sem rekur ferðaþjónustufyrirtæki í Vanúatú.
Jarðskjálftar eru algengir á eyjunum sem liggja lágt og eru á svokölluðum eldhring þar sem eldgos og jarðskjálftar eru algengir. Þar búa um 320.000 manns.
Fram kemur í umfjöllun AFP að skriður hafi fallið víða á eyjunum, m.a. niður bratta brekku sem liggur við alþjóðlega flutningamiðstöð. Það er þó ekki að sjá að hafnarbyggingar hafi skemmst.
Þá sló skjálftinn út farsímasambandið á Vanúatú.