Telur grunsamlegu drónana vera bandaríska

Dróni á flugi. Myndin er úr safni.
Dróni á flugi. Myndin er úr safni. AFP

Bandarískur hernaðarsérfræðingur telur líklegt að grunsamlegir drónar, sem hafa sést á flugi undanfarnar vikur víða í Bandaríkjunum, eigi rætur að rekja innan Bandaríkjanna.

Almennir borgarar, þingmenn og fleiri hafa greint frá ferðum dróna í New Jersey, Pennsylvaníu, New York, Connecticut, Ohio og í fleiri ríkjum.

Hingað til hafa yfirvöld, m.a. ríkið og lögregluyfirvöld, veitt litlar upplýsingar um hvað sé þarna á ferðinni, en flestir drónarnir hafa sést á flugi að næturlagi. Sumir þeirra eru sagðir vera á stærð við bifreiðar, að því er segir í umfjöllun bandarísku Fox-fréttastöðvarinnar.

Erfitt að fljúga óséður til Bandaríkjanna

„Áhyggjur fólks eru góðar og gildar. Ég er þeirrar skoðunar að yfirvöld viti hvaðan þessir drónar koma, og ég tel að þeir eigi rætur að rekja innan Bandaríkjanna, þá sérstaklega stærri drónarnir,“ segir ofurstinn William Dunn, sem er formaður ráðgjafasamtakanna Strategic Resilience Group, í samtali við Fox News Digital. Hann flaug sjálfur herþyrlum um árabil hjá Bandaríkjaher.

„Það er mjög erfitt að fljúga flugvél óséður til Bandaríkjanna og því tel ég að drónarnir komi frá Bandaríkjunum,“ bætti hann við.

Með hverju er verið að fylgjast?

„Við erum að öllum líkindum með bandaríska dróna, einnig þessa minni dróna, sem er verið að fljúga í ákveðnum tilgangi. Spurningin er, hvað eru þessir drónar að gera? Ég held að þeir séu að fylgjast með einhverju,“ segir Dunn.

„Þeir eru að leita að einhverju, annaðhvort að efnavopni eða mögulega geislun. Þið vitið að það hefur verið mikið talað um að syðri landamærin séu opin og það er talað um að hryðjuverkavá sé yfirvofandi,“ segir Dunn í viðtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert