Útgöngubann í lömuðu samfélagi

Rústir heils hverfis og fallin tré í Combani á Mayotte …
Rústir heils hverfis og fallin tré í Combani á Mayotte eru til vitnis um mátt hvirfilbylsins Chido er hann skildi eftir slóð eyðingar og dauða um helgina. AFP/Securite Civile

Frönsk stjórnvöld hafa gefið það út að útgöngubann um nætur taki gildi í kvöld á eyjunni Mayotte í Indlandshafi, sem lýtur frönskum yfirráðum, í kjölfar þess er hvirfilbylurinn Chido varð 21 eyjarskeggja að bana samkvæmt fyrstu opinberu tölum en bylurinn gekk yfir Mayotte og eyjaklasann umhverfis hana um helgina.

Óttast yfirvöld þó að raunverulegar tölur séu mun hærri og hundruð, jafnvel þúsundir, hafi orðið Chido að bráð þar sem vinna við hreinsun og frágang húsarústa er rétt nýhafin. Þá greinir Rauði krossinn frá því að óttast sé að yfir 200 sjálfboðaliðar á vegum hans séu týndir á eyjunni.

Heilbrigðiskerfið er lamað, rafmagnsleysi nær um alla eyjuna og flugvöllurinn er lokaður öllu borgaralegu flugi samhliða því sem óttast er að neysluvatn verði brátt á þrotum.

Macron lofar heimsókn

Er útgöngubanninu, sem gilda mun frá klukkan 22 til 04, ætlað að stemma stigu við þjófnaði úr rústum íbúðar- og atvinnuhúsnæðis að sögn franska innanríkisráðherrans Bruno Retailleau sem heimsótti Mayotte í gær, sama dag og Emmanuel Macron forseti hélt neyðarfund vegna hamfaranna auk þess sem hann hét því að heimsækja íbúana á næstu dögum.

Gaf Retailleau það út að næstu daga væri von á 400 manna liðsauka frönsku lögreglunnar gendarmie, sem er sá hluti hennar sem fer með löggæslu annars staðar en í höfuðborginni París, og mun sá hópur verða 1.600 manna lögregluliði, sem þegar er á staðnum, til fulltingis.

Franskar herflugvélar hafa verið í stöðugu flugi milli Mayotte og eyjarinnar La Reunion, sem einnig lýtur franskri stjórn og var ekki á leið hvirfilbylsins, en þar hefur miðstöð björgunaraðgerða verið valinn staður. Var fyrsti hópur alvarlega slasaðra, 25 manns, sendur með flugi til La Reunion í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert