Aðgerðarsinninn Paul Watson verður ekki framseldur til Japans og þess í stað verður hann látinn laus úr fangelsi í Grænlandi þar sem hann hefur verið í tæpa fimm mánuði.
Danska ríkisútvarpið, DR, greinir frá.
Jonas Christoffersen, verjandi Watson, segir að lögreglan sé á leið í fangelsið í Anstalten á Grænlandi til að upplýsa starfsfólk þar um að sleppa Watson úr haldi.
„Ég geri ráð fyrir að hann taki fyrsta flugið heim til Frakklands, þar sem hann getur eytt jólunum með fjölskyldu sinni,“ segir Christoffersen við DR.
Watson, sem er 74 ára gamall, var handtekinn vegna handtökuskipunar í Japan frá árinu 2012. Þar var hann sakaður um skemmdarverk á hvalveiðiskipi á Suðurskautinu árið 2010 og fyrir að slasa hvalveiðimann.
Hann hefur setið í fangelsi á Grænlandi frá 21. júlí í sumar.