Yfirmaður efnavopna rússneska hersins lést í sprengingu

Igor Kirillov.
Igor Kirillov. AFP

Igor Kirillov, yfirmaður efna-, sýkla- og geislavopnadeildar rússneska hersins, lést ásamt aðstoðarmanni sínum þegar sprengiefni sem fest var við vespu sprakk fyrir utan fjölbýlishús í Moskvu.

Sprengjan sprakk þegar mennirnir yfirgáfu byggingu í íbúðarhverfi í suðausturhluta Moskvu snemma morguns í morgun.

Kirillov er æðsti embættismaður rússneska hersins sem fallið hefur í sprengingu í Moskvu frá því stríð Rússa og Úkraínumanna hófst fyrir tæpum þremur árum. Hann tók við embætti yfirmanns efna-, sýkla- og geislavopnadeildar rússneska hersins árið 2017.

Kirillov hefur verið sakaður um að eiga stóran þátt í því að Rússar beittu efnavopnum í innrás sinni í Úkraínu og beitti breska ríkisstjórnin refsiaðgerðum gegn Kirillov og hans mönnum fyrir að aðstoða við að nota efnavopnin í stríðinu.

Rússneska rannsóknarnefndin segir að Kirillov hafi verið drepinn eftir að sprengju sem komið var fyrir í vespu sem lagt var nálægt inngangi íbúðarhúss hafi sprungið á Ryazansky breiðgötunni í Moskvu.

Var ákærður í gær

„Fordæmalaus glæpur framinn í Moskvu,“ segir dagblaðið Kommersant á vefsíðu sinni. Sprengingin braut nokkrar rúður í byggingunni og stórskemmdir útidyrnar, að sögn fréttamanns AFP-fréttaveitunnar á staðnum.

Leyniþjónusta Úkraínu (SBU) ákærði í gær Kirillov fyrir að nota efnavopn í Úkraínu en hún heldur því fram að efnavopnum hafi verið beitt í landinu meira en 4.800 sinnum síðan Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022. Leyniþjónustan segir að rússneskar hersveitir varpi efnavopnum á úkraínska hermenn með drónum.

Heimildarmaður innan leyniþjónustunnar segir við AFP-fréttaveituna að morðið á Kirillov hafi verið „sérstök aðgerð“ af hálfu leyniþjónustunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert