Hæstiréttur Bandaríkjanna mun úrskurða um það hvort að fyrirhugað bann við Tiktok í Bandaríkjunum standist stjórnarskrá Bandaríkjanna.
Dagblaðið Wall Street Journal greinir frá.
Joe Biden Bandaríkjaforseti undirritaði lög fyrr á árinu eftir að öldungadeildin samþykkti frumvarp sem þvingar ByteDance, móðurfélag TikTok, til að selja samfélagsmiðilinn á innan við ári ellegar muni forritin App store og Google play store ekki veita notendum aðgang að TikTok.
Bannið á að taka gildi 19. janúar á næsta ári og því hefur Hæstiréttur ákveðið að veita málinu flýtimeðferð.
Spurningin sem Hæstiréttur mun dæma um er hvort að bannið stangist á við fyrsta viðauka við stjórnarskrá sem tryggir m.a. tjáningarfrelsi.
TikTok og áhrifavaldar á miðlinum báðu Hæstarétt um að skera úr um það þar sem þeir segja að bannið skerði tjáningarfrelsi.
Áfrýjunardómstóll í Washington úrskurðaði fyrr í þessum mánuði að lögin færu ekki gegn stjórnarskrá og margir töldu ólíklegt að Hæstiréttur myndi taka upp málið.
Bandarískir og vestrænir embættismenn hafa löngum varað við því að TikTok safni of mikið af gögnum um notendur og að kínversk stjórnvöld hafi greiðan aðgang að þeim gögnum.
Þá hafa sumir einnig sakað kínversk stjórnvöld um að dreifa áróðri á samfélagsmiðlinum. Kínversk stjórnvöld og TikTok hafna þeim ásökunum.
Bannið tekur gildi degi áður en Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, tekur við embætti en hann hefur lýst yfir efasemdum um bannið og sagt það aðeins til þess fallið að styrkja stöðu fyrirtækja eins og Meta.