Elti og áreitti mótmælendur kínverskra yfirvalda

Maðurinn elti og áreitti mótmælendur ríkisstjórnarinnar.
Maðurinn elti og áreitti mótmælendur ríkisstjórnarinnar. AFP

Karlmaður á sextugsaldri hefur verið sakfelldur fyrir að hafa starfað sem útsendari kínverskra stjórnvalda í Bandaríkjunum. Maðurinn á yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsisvist en hann hélt úti leynilegri kínverskri „lögreglustöð“ þar sem hann fylgdist með og áreitti Kínverja sem settu sig upp á móti kínversku ríkisstjórninni.

Maðurinn heitir Chen Jinping en hann játaði sök fyrir dómi. 

Jinping var handtekinn ásamt Harry Lu Jianwang í apríl í fyrra þar sem þeir voru sakaðir um að hafa starfrækt leynilögreglustöð á Manhattan fyrir almannaöryggisráðuneytið í Kína.

Þóttust bjóða upp á endurnýjun ökuskírteina

Þeir félagar settu stöðina upp í Kínahverfinu á Manhattan þar sem átti að bjóða upp á þjónustu á borð við endurnýjun kínverskra ökuskírteina. Svo var ekki og var lögreglustöðin í raun yfirbygging til að aðstoða við að hafa uppi á og áreita Kínverja sem hafa mótmælt stjórnvöldum heima fyrir. 

Lu hefur sagt sig saklausan í málinu og bíður réttarhalda. 

Hér má sjá þar sem lögreglustöðin var til húsa.
Hér má sjá þar sem lögreglustöðin var til húsa. AFP

Áminning um viðleitni kínverskra stjórnvalda

Robert Wells, háttsettur embættismaður alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI), sagði að mál Chens væri áminning um viðleitni kínverskra yfirvalda um að hóta, áreita og ógna þeim sem töluðu gegn kínverska Kommúnistaflokknum. 

„Þessi svívirðilegu brot verða ekki liðin á bandarískri grundu,“ sagði Wells. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert