Hætta fjármögnun til trans-barna hermanna

Biden á eftir að undirrita lögin.
Biden á eftir að undirrita lögin. AFP

Bandaríkjaþing samþykkti í dag árlega fjárveitingu til varnarmála í landinu. Laun hermanna verða hækkuð en hætt verður að fjármagna tiltekna heilbrigðisþjónustu sem aðstoðar við kynleiðréttingarferli barna hermanna.

Í umræðunni um fjárveitinguna lögðu repúblikanar það til að hætt yrði að styðja fjárhagslega við heilbrigðisþjónustu sem aðstoðar við kynleiðréttingarferli barna hermanna. Sögðu þeir að skattfé Bandaríkjamanna ætti ekki að styðja við aðgerðir eða meðferðir sem gætu skaðað eða stuðlað að ófrjósemi ungmenna. 

Fjárlögin nema 884 milljörðum dollara, eða því sem samsamar 121 þúsund milljörðum íslenskra króna. Laun nýrra hermanna verða hækkuð um 14,5 prósent og laun annarra hermanna um 4,5 prósent. 

Þarfnast undirritunar Biden

Heilbrigðisþjónusta fyrir börn sem eru í kynleiðréttingaferli getur verið ólík á meðal barna en hún felur í sér að læknir aðstoðar barn við að leiðrétta það kyn sem því var úthlutað við fæðingu. Þjónustan getur verið allt frá sálfræðiþjónustu yfir í kynþroskabælandi lyf til að sporna við áhrifum kynþroskabreytinga. 

Lögin verða send Joe Biden Bandaríkjaforseta til undirritunar en talsmaður Hvíta hússins hefur ekki tjáð sig um hvort Biden muni undirrita lögin. 

Nýlega bannað í Bretlandi

Í síðustu viku bannaði heilbrigðisráðherra Bretlands sjálfstætt starfandi læknum að veita börnum undir 18 ára kynþroskabælandi lyf, en fyrr á árinu ákvað opinbera heilbrigðiskerfið (NHS) að setja bann við að gefa börnum lyfin. 

Þessi ákvörðun kom í kjölfar rannsóknar sem breski barnalæknirinn Hilary Cass var fengin til að gera fyrir NHS. Þar kom í ljós að gæta þyrfti varúðar þegar það kæmi að því að gefa börnum kynþroskabælandi lyf þar sem það skortir rannsóknir um langtímaáhrif þeirra.

Ekki hefur verið mikil umræða um veitingu kynþorskabælandi lyfja til barna hér á landi en þingmennirnir Dagbjört Hákonardóttir og Snorri Másson ræddu um málið í Dagmálum nú á dögunum. 

Þingmennirnir voru ósammála um hvort taka þyrfti umræðu um málið hér á landi. Sagði Snorri sjálfsagt að tekin yrði umræða um málið hér á landi á meðan Dagbjört kallaði ekki eftir því. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert