Karlmaður á þrítugsaldri hlaut í morgun átta ára og tíu mánaða fangelsisdóm fyrir Héraðsdómi Þrændalaga í Noregi fyrir að nauðga sex stúlkum undir lögaldri, þar af einni tólf ára ára gamalli, auk þess að dæmast sekur um stórfellt mansal tveggja stúlkna, tólf og fimmtán ára, með því að hafa hagnast á vændisstarfsemi þar sem hann seldi aðgang að stúlkunum.
Stundaði dæmdi viðskipti sín gegnum samfélagsmiðilinn Snapchat og viðurkenndi flest það er honum var gefið að sök í ákæru – þó ekki kynmök við þrettán ára gamla stúlku sem fjölskipaður héraðsdómur sýknaði hann af. Meðal gagna í málinu er eftirfarandi texti frá dæmda til einna stúlknanna:
OK, þú hittir hann klukkan 14:30 með mér við Kirkju vorrar frúar og svo bíð ég.
Ég tek fyrst 1.500 og svo færð þú 1.500 þegar þú ferð.
Ef honum líkar það sem hann fær geturðu fengið hann sem fastakúnna ef þú vilt.
Þú ert nafnlaus, ekki segja nafnið þitt. Og þú ert sextán ára.
Samkvæmt norskum hegningarlögum teljast kynmök við börn undir fjórtán ára aldri nauðgun, óháð því hvort fórnarlambið hafi lýst sig samþykkt eður ei, en auk fangelsisrefsingar dæmdu dómendur manninum skylt að greiða stúlkunum, er hann meingerði við, samtals 1,2 milljónir króna í miskabætur, jafnvirði tæpra fimmtán milljóna íslenskra króna.
„Dómurinn er að okkar áliti sterkur og vel rökum studdur og við föllumst á hann,“ segir Per Morten Schjetne við norska ríkisútvarpið NRK, en hann annaðist sóknarhlið málsins.
Að mati dómenda átti dæmdi sér engar miskabætur, bar hann því við fyrir dómi hvað eina stúlknanna snerti að fyrir honum hefði aðeins vakað að rétta fjárhag hennar við
„Ef honum hefði ekki verið sama um hvað ég var gömul hefði þetta ekki gerst,“ sagði yngsta stúlkan við dómendur í skýrslutöku sem fram fór fyrir luktum dyrum.
Schjetne saksóknari krafðist sjö ára dóms yfir manninum yrði hann talinn sekur um öll ákæruatriði og fékk því umtalsvert þyngri dóm en skotið var til. „Þetta er ungur maður, en jafnframt nægilega þroskaður til að skilja að hann notfærði sér stúlkurnar í eigin þágu. Hann valdi sér þær sem veikastar voru fyrir úr þeim hópi sem þegar átti undir högg að sækja,“ sagði saksóknari við aðalmeðferð málsins.
Um þetta deildu Jasmin Gheshlagi verjandi og Lilli Marie Brimi, réttargæslumaður fórnarlamba mannsins, í dómsalnum í Þrándheimi og hélt Gheshlagi því fram í nauðvörn undir lok aðalmeðferðar að það væri ákærði sjálfur sem ætti um sárt að binda sem leitt hefði til þess að hann blekkti stúlkurnar til lags við sig með gylliboðum sem fólust meðal annars í peningagreiðslum, sígarettum, munntóbaki og öðrum verðmætum.