Sænska lögreglan fái heimild til að hlera börn

Sænska lögreglan - Svíþjóð -
Sænska lögreglan - Svíþjóð - mbl.is/Gunnlaugur

Sænska ríkisstjórnin vill veita lögreglunni heimild til að hlera símtöl og önnur rafræn samskipti barna undir 15 ára aldri til að bregðast við auknu ofbeldi glæpagengja í landinu. AFP-fréttastofan greinir frá.

Á síðustu árum hefur skot- og sprengjuárásum í tengslum við uppgjör glæpagengja og baráttu um yfirráðasvæði á fíkniefnamarkaðnum fjölgað verulega í Svíþjóð.

Í mörgum tilfellum eru það börn og unglingar undir sakhæfisaldri, sem fremja brotin, en þau eru þá ráðin af gengjum eða glæpahópum til að vinna voðaverkin.

Fá börn niður í 10 ára til liðs við sig

Gunnar Strommer, dómsmálaráðherra í sænsku ríkisstjórninni, sagði á blaðamannafundi í dag að glæpahópar væru að fá til börn allt niður í 10 til 11 ára til liðs við sig.

„Skotvopn og sprengjur eru afhent börnunum niður í 12 til 13 ára. Skotárásir og aðrir ofbeldisglæpir eru svo framdir af börnum niður í 14 til 15 ára,“ sagði Strommer á fundinum, þar sem áform ríkisstjórnarinnar voru kynnt.

Ríkari kröfur en hjá fullorðnum

Núverandi löggjöf um það hvernig lögreglan meðhöndlar unga brotamenn nær ekki yfir hleranir, en frumvarpið sem nú er í smíðum myndi heimila lögreglu hleranir brotamanna undir 15 ára aldri.

Það verða þó gerðar ríkari kröfur um rökstuddan grun um afbrot en hjá fullorðnum. Rannsókn yrði að ná yfir glæp sem varðaði allt að fjögurra ára fangelsi eða hryðjuverk.

Frumvarpið verður sent til umsagnar sérfræðinga og yfirvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka