Tala látinna af völdum jarðskjálftans öfluga sem reið yfir á Kyrrahafseyjunni Vanúatú í gær er komin upp í 14.
Fjórir hinna látnu létust á sjúkrahúsi í höfuðborginni Port Vilaþ Sex fórust í aurskriðu og fjórir létu lífið í byggingum sem hrundu.
Skjálftinn var af stærðinni 7,3 og hrundu margar byggingar ekki síst í höfuðstaðnum Port Vila þar sem mikið tjón varð á byggingum.
Björgunaraðilar vinna hörðum höndum við leit að fólki en rafmagn og símasamband liggur niðri á mörgum svæðum.
Jarðskjálftar eru algengir á eyjunum, sem liggja lágt og eru á svokölluðum eldhring þar sem eldgos og jarðskjálftar eru algengir. Á Vanúatú búa um 320.000 manns.
Að sögn yfirvalda hefur þurft að flytja yfir 200 slasaða á sjúkrahús en sjö daga neyðarástandi hefur verið lýst til að takmarka för almennings á meðan leitar- og hjálparaðgerðir standa yfir.
Ástralía og Nýja-Sjáland hafa sent björgunarlið til aðstoðar við leit og björgun og þá hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum og Frakklandi heitið aðstoð.