Flugvél Norwegian rann út af flugbraut

Þessi mynd er í dreifingu á samfélagsmiðlum af atvikinu.
Þessi mynd er í dreifingu á samfélagsmiðlum af atvikinu. Ljósmynd/Twitter/@OnDisasters

Flugvél norska flugfélagsins Norwegian fór út af flugbrautinni á Molde-flugvellinum í Noregi í kvöld er hún lenti. Yfir 170 farþegar voru um borð en engar tilkynningar hafa borist um að neinn hafi slasast.

Norska ríkisútvarpið (NRK) greinir frá.

Viðbragðsaðilar voru kallaðir til eftir að þeir fengu tilkynningu um að farþegaþota hefði farið út af flugbrautinni.

Allt í einu byrjaði hún að renna“

„Við höfum lokið rýmingu [flugvélarinnar] og höfum komið farþegunum fyrir inn á flugvellinum þar lögregla og krísuteymi, sem voru kölluð út, hlúir að þeim,“ sagði lögreglufulltrúinn Sindre Molnes í samtali við NRK.

Hann segir að engar tilkynningar hafi borist um meiðsli þó farþegar séu slegnir. 171 farþegi var um borð í vélinni.

„Ég fann fyrir venjulegri lendingu flugvélarinnar en svo allt í einu byrjaði hún að renna til hliðar. Svo byrjuðu allir að líta út um gluggana og ég tók eftir því að við vorum ekki lengur á flugbrautinni,“ sagði Asbjørn Mittet, einn af farþegunum, í samtali við NRK.

Vindhviður og hált

Norwegian segir að veðurskilyrði séu talin ástæða þess að vélin fór út af flugbrautinni.

„Vindhviður og hálka á flugbraut þegar vélin fór út af flugbrautinni á flugvellinum í Molde,“ sagði Eline Hyggen Skari, upplýsingafulltrúi Norwegian.

„Eftir lendingu kom vindhviða og flugbrautin var hál,“ sagði Eline. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert