Að minnsta kosti 30 palestínskir íbúar létu lífið í loftárásum ísraelska hersins í dag, þar á meðal konur og börn.
Að sögn almannavarna á Gasasvæðinu urðu tveir skólar á austurhluta Gasasvæðisins fyrir loftárásunum og létust þrettán manns í þeim árásum en auk þess særðust 30 manns.
Ísraelski herinn hefur upplýst að sú árás hafi beinst að vígamönnum Hamas sem herinn segir hafa verið starfandi á skólasvæðinu við að skipuleggja hryðjuverkaárásir gegn Ísrael.
Þá létust þrettán manns þegar ísraelsk orrustuflugvél skaut á hóp Palestínumanna sem voru að skammta sér vatn í flóttamannabúðum á vesturhluta Gasasvæðisins.
Einnig létust fjórir er hús varð fyrir einni loftárásinni á austurhluta svæðisins.
Samkvæmt fréttaveitunni AFP hefur ísraelski herinn ekki tjáð sig um árásirnar á flóttamannabúðirnar og húsið.
Greint var frá fyrir viku að vonir væru bundnar við að vopnahlé væri innan seilingar í stríði Ísraels við Hamas.