Kúamjólk hollari heldur en jurtadrykkir

Einnig kemur fram í frétt danska ríkisútvarpsins að munurinn á …
Einnig kemur fram í frétt danska ríkisútvarpsins að munurinn á kolefnisfótspori sé óverulegur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kúamjólk er hollari fyrir mannfólk heldur en jurtadrykkir samkvæmt nýrri rannsókn sem vísindamenn við Kaupmannahafnarháskóla hafa birt.

Danska ríkisútvarpið greinir frá.

„Á heildina litið innihalda jurtadrykkir umtalsvert minna prótein og sumir þeirra innihalda einnig meira af sykri en kúamjólk,“ segir Marianne Nissen Lund, yfirhöfundur rannsóknarinnar.

Minna prótein í jurtadrykkjum

Ólíkt kúamjólk þurfa hafrar, soja, hrísgrjón og möndlur að fara í frekari vinnslu til að verða að vökva. Þar að auki þurfa flestir jurtadrykkir að fara í hitameðferð sem veldur því að prótein tapast.

„Það þýðir að þú munt fá aukið næringartap á próteini, sem fyrir er ekki mikið, því þú þarft að vinna það miklu meira,“ segir Marianne Nissen Lund.

Það er minna af nauðsynlegum amínósýrum í öllum jurtadrykkjum heldur en í kúamjólk og þá innihalda sjö af hverjum tíu jurtadrykkjum meiri sykur heldur en kúamjólk.

Ekki mikill munur á kolefnisfótspori

Þó að jurtadrykkir séu ekki eins hollir og kúamjólk eru þeir ekki endilega óhollir, segir Marianne Nissen Lund.

„Ef maður passar upp á að vera með fjölbreytt mataræði þá er það mitt mat að það sé ekkert að því að drekka þessa jurtadrykki. Maður ætti bara ekki að halda að þetta sé góð næring,“ segir hún.

Sumir hafa skipt út kúamjólk fyrir jurtadrykki vegna áhyggja af kolefnisfótspori. Munurinn er þó ekki svo mikill samkvæmt útreikningum grænu hugveitunnar Concito.

„Það er ákveðinn ávinningur fyrir loftslagið að skipta út mjólk fyrir jurtadrykki, en hann er ekki verulegur,“ segir Michael Minter, verkefnastjóri hjá Concito.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert