„Mamma fór að hágráta“

Jan-Erik Fjell hóf ferilinn árið 2009 með unglingabók sem hann …
Jan-Erik Fjell hóf ferilinn árið 2009 með unglingabók sem hann vill helst gleyma. Hann ákvað þó að reyna aftur og úr varð Tysteren, Uppljóstrarinn, sem kom út árið 2010 og aflaði höfundinum Bokhandlerprisen, einna virtustu bókmenntaverðlauna Noregs. Ljósmynd/Anita Sjøstrøm

„Ég ólst upp í Gressvik hér í Fredrikstad og af skólagöngu minni fer ekki miklum sögum,“ segir viðmælandinn hispurslaust og brosir út í annað þar sem hann situr í hjólastól með sixpensara á höfði andspænis blaðamanni í nýrri og glæsilegri mathöll ekki langt frá farvegi árinnar Glommu, þar sem þungur og grár straumurinn þylur í hljóði dauðra manna nöfn.

Lítill er enda hörgullinn á harmleikjunum sem Glomma geymir. Þagmælskan er hennar aðal, vatnið talar ekki af sér, en ótal fyrirsagnir norskra fjölmiðla segja langa sögu og dapra. „Viðurkennir að hafa sökkt líki í Glommu“, „Líkfundur í Glommu í Fredrikstad“, „Kafarar fundu lík í Glommu...“, „Fann látna konu í Glommu“ og svo eins og skrattinn úr leggnum: „Er lax í Glommu góð hugmynd?“

Blaðamaður hefur enn ekki gert það upp við sig hvort hann legði sér nokkuð til munns úr þessum Hadesarheimi norskrar náttúru og um leið lengstu á Noregs sem rennur þar 620 kílómetra og geymir vafalítið mörg ófundin lík.

Tossi í skóla í iðnaðarbæli

Í mathöllinni hefur nefnilega stærri fiskur bitið á agnið. Maðurinn með sixpensarann í hjólastólnum hefur margt líkið falið – en aðeins undir svörtu bleki á hvítum grunni. Glæpasagnahöfundurinn Jan-Erik Fjell fór beint í toppsæti metsölulista norsku útgáfurisanna Norli og Ark þegar Skriket, fyrsta bókin í blóðugum þríleik – og samstarfsverkefni þeirra þungavigtarmannsins Jørns Liers Horsts– kom í hillurnar í sumar.

Sá sixpensaraskrýddi varð aukinheldur yngstur rithöfunda í sögu Bokhandlerprisen, hinna virtu bókmenntaverðlauna norskra útgefenda, til að hljóta þau. „Mamma fór að hágráta,“ rifjar Fjell upp, sem sjálfur áttaði sig ekki á því fyrr en mánuðum síðar hvílík lyftistöng felst í því að hljóta æðstu viðurkenningu útgefenda. Hann var bara einhver tossi í skóla í iðnaðarbælinu „plankabænum“ sem ákvað að skrifa bók þegar honum tók að þykja daufin vist á örorkubótum.

Þetta var árið 2010 og síðan hefur Jan-Erik Fjell skrifað margar bækur. Glæpasagnameistarinn frá Fredrikstad er að mati þess sem hér skrifar einn fárra landa sinna úr rithöfundastétt sem kunna að bregða fyrir sig leiftrandi – en um leið ísmeygilegri – gamansemi í norskum morðsögum. Hann segir áfram af skólagöngunni.

„Það er nú dálítið fyndin saga,“ rifjar rithöfundurinn upp og dylur Fredrikstad-mállýskan ekki uppruna hans, eins konar undirdeild Østfold-framburðarins sem mátti þola harða gagnrýni þegar málvísindaprófessorinn Finn-Erik Vinje lýsti því yfir í blaðaviðtali árið 2013 að íbúar Fredrikstad mæltu á ljótustu framburðarmállýsku Noregs. Samtímis þessu voru kokhljóð Stavanger-búa, þar sem blaðamaður bjó raunar á þeim tíma, kosin kynþokkafyllsti framburður landsins. Margt er skrýtið í kýrhausnum.

Viðtalið fer fram í matarhöllinni Matværste sem er Fredrikstad-mállýska yfir …
Viðtalið fer fram í matarhöllinni Matværste sem er Fredrikstad-mállýska yfir „Matverkstedet“, Matarverkstæðið. Þar á Fjell hlut í lítilli kjötvöruverslun með mjög girnilegu búðarborði. Meðeigandinn er Lars-Christian Edvardsen sem glottir við tönn bak við borðið. Ljósmynd/Anita Sjøstrøm

Hinn gaurinn á leið fyrir dóm

„Eftir mörg ár í hvíld og ýmsar brautir í framhaldsskóla endaði ég í einhverju upplýsingatækninámi,“ segir Fjell. „Það var Aetaten sem kostaði þetta, sem seinna varð [norska vinnumálastofnunin] NAV og var nú aðallega bara til að fá atvinnulaust fólk til að hætta að mæla göturnar. Til að gera langa sögu stutta féllu tveir í bekknum á lokaprófinu, ég og einn til,“ segir Fjell og glottir við tönn.

„Næstum allur hópurinn var þarna bara til að fá bæturnar. Hinn gaurinn sem féll var á leið fyrir dóm og ætlaði sér að sýna dómaranum fram á breytt líferni sitt með því að hafa brotist til mennta fyrir aðalmeðferðina,“ segir höfundurinn frá á meðan hláturinn kumrar niðri í honum.

Ég skil. En nú stendur á bókakápunum þínum að þú sért menntaður í IT-fræðum [upplýsingatækni, tölvur o.s.frv.], ég hélt að þú værir tölvunarfræðingur sem sneri sér að hinu ritaða orði.

„Já, það er nú einmitt það. Ég varð að tefla fram einhverju starfsheiti heimtaði fyrsti útgefandinn minn,“ svarar Fjell spurningu sem í raun var fullyrðing. „Svo fór ég í lýðháskóla í svipað nám sem var sami grautur nema að þar hét það upplýsingatækni-, skrifstofu- og stjórnsýslustörf. Hljómar rosalega vel en þar skítféll ég líka,“ segir hann sposkur.

„Við verðum að hafa eitthvað!“

Skömmu síðar urðu vatnaskil í lífi manns sem hafði ekki hugmynd um hvert það sama líf ætlaði honum. „Á þessum tíma var ég að skrifa Uppljóstrarann [n. Tysteren] og eitt kvöldið hringir sá sem var útgefandinn minn á þessum tíma og spyr mig hvaða menntun ég hafi. „Ja, þar er nú ekki feitan gölt að flá,“ svara ég. „Við verðum að hafa eitthvað!“ segir hann og ég segi honum að ég hafi síðast verið í námi í upplýsingatækni og skrifst..., „já, það er fínt, takk,“ segir hann og þar með var það úr sögunni,“ rifjar Fjell upp og minnir um margt á viðtal Morgunblaðsins við Michael Caine í mars sem hafði sekúndur til að velja sér sviðsnafn í símaklefa í London.

Áður en Fjell skrifaði Uppljóstrarann, bók sem skaut honum rakleiðis á sporbaug í skandinavískum glæpasagnaheimi og skartar höfuðsköpunarverki hans, KRIPOS-rannsóknarlögreglumanninum, spilafíklinum og háðfuglinum Anton Brekke, hafði hann sent frá sér fálmkennda tilraun undir titlinum Pus sem kom út árið á undan, 2009, og sannaði svo ekki varð um villst að fall er líka fararheill í Fredrikstad. Bókin hreyfðist einfaldlega ekki úr hillum verslana.

Hér hófst ævintýrið. Tysteren, eða Uppljóstrarinn, kom út árið 2010 …
Hér hófst ævintýrið. Tysteren, eða Uppljóstrarinn, kom út árið 2010 og Jan-Erik Fjell komst á kortið. Það gerði Anton Brekke líka, rannsóknarlögreglumaðurinn sem Fjell skóp þegar í fyrstu bókinni og hefur notið gríðarlegra vinsælda meðal lesenda hans. Skjáskot/Boklibris.is

„Ég á tvo yngri bræður, ég er stóri bróðir og ég á að vera góð fyrirmynd. Það er ég ekki,“ segir hann og hlær af innlifun áður en stutt hlé verður á viðtalinu á meðan Fjell ræðir við Sjøstrøm ljósmyndara um föður rithöfundarins, leikarann Jan Edgar Fjell sem blaðamaður hefur aldrei heyrt um enda ekki Norðmaður eins og rithöfundurinn og ljósmyndarinn. Alltaf er maður utangarðs.

Norskur stíll uppáhaldsfagið

En hvað varð til þess að þér datt í hug að setjast bara niður og skrifa bók þegar þú sást að hvorki gekk né rak í lífinu?

Þrátt fyrir að Fjell hafi ekki fengið eina einustu spurningu fyrir fram, sá sem hér skrifar er löngu hættur að útbúa spurningar fyrir viðtöl, hikar viðmælandinn aldrei við spurningu. Svo var heldur ekki hér. „Ef það er eitthvert fag sem hefur einhvern tímann heillað mig í skólanum var það norskur stíll,“ svarar einn af þekktari rithöfundum Noregs um hæl, „ég held að þetta sé ekki gert lengur, núna eiga nemendur bara að greina texta eftir aðra, en þarna fékk maður bara fyrirsögn og átti svo að skrifa texta. Það höfðaði til mín,“ segir Fjell og undir sixpensaranum gráa bregður glampa fyrir í samlitum augum.

Rifjar hann upp að eina skiptið sem hann fékk fimm í einkunn í skóla í norsku einkunnakerfi sem nær frá núll upp í fimm hafi verið fyrir norskan stíl. „Svo ég hugsaði með mér hvort ég ætti kannski að skrifa bók,“ heldur hann áfram og svipur hans tekur á sig glettnislegt yfirbragð, „þú veist að þegar einhver segir þér að hann langi að skrifa bók er það í níu af tíu tilfellum þessi fræga uppeldisskáldsaga sem helst á að fjalla um hann sjálfan.“

Frumraun hans var unglingaskáldsagan Pus sem hann skrifaði á rúmum mánuði. „Ég sendi hana á fjölda útgefenda og fékk nei frá þeim öllum. Svo hafði lítið bókaforlag samband, eiginlega bara einn maður, og hann var sannfærður um að þetta yrði metsölubók. Það varð hún ekki,“ segir Fjell og hlær við raust. „Það sem hins vegar gerðist þarna var að í fyrsta sinn á ævinni byrjaði ég á einhverju verkefni og kláraði það,“ heldur hann áfram og lækkar röddina um eina áttund, verður hugsi um stund.

Ekkert gaman að segjast vera fatlaður

„Mér fannst líka gaman að skrifa og svo er annað í þessu. Ég er fatlaður,“ segir Fjell með áherslu, „mér fannst ekkert gaman að svara því til, þegar fólk spurði mig hvað ég gerði í lífinu, að ég væri fatlaður. En þegar ég hafði skrifað þessa fyrstu bók, þótt hún hafi ekki selst neitt, þá gat ég svarað því til að ég skrifaði bækur þótt ég væri enn á bótum frá NAV. Þetta gaf mér svo mikið get ég sagt þér og þá hugsaði ég með mér að ég ætti nú að skrifa eina til og sjá hvernig gengi – og í það sinnið alvörubók, ekki einhverja unglingasögu,“ rifjar Fjell upp af árinu 2010.

„Þeir segjast vilja fá mig til Óslóar 1. desember, ég …
„Þeir segjast vilja fá mig til Óslóar 1. desember, ég væri að fá Bokhandlerprisen, og ég segist vel geta hugsað mér það. Ég hélt að þetta væri svona óskarsverðlaunaathöfn, að allir sem væru tilnefndir kæmu og gengju eftir rauðum dregli og svo væri sigurvegarinn tilkynntur.“ mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Nú voru vatnaskil í nánd, hrein stórmerki í lífi manns sem fram til þess hafði verið hálfgerður áhorfandi að samfélaginu. „Út úr þessu kom Uppljóstrarinn,“ segir hann frá og einn góðan veðurdag, eftir að fyrsta bókin um rannsóknarlögreglumanninn og spilafíkilinn Anton Brekke barst í hendur norskra lesenda, kom símtalið sem breytti lífi ungs og skítblanks rithöfundar í Fredrikstad og grætti móður hans svo um munaði.

„Útgefandinn minn hringir þá og segir mér að ég hafi verið tilnefndur til Bokhandlerprisen. „Nú nú, en gaman,“ hugsaði ég með mér og hugsaði um leið út í alla hina sem höfðu verið tilnefndir, Gunnar Stålesen, Tom Egeland, Henrik Langeland og ég veit ekki hvað. Níu stórir höfundar og svo litli ég númer tíu. Ég vissi að mér væru ekki ætluð verðlaunin. Þarna var fólk sem ég gat engan veginn keppt við. Risarnir,“ segir hann frá.

„Nei, þú færð verðlaunin“

En viti menn. Í nóvember 2010 fær Fjell annað símtal, í þetta sinn frá Samtökum norskra bókaútgefenda. „Þeir segjast vilja fá mig til Óslóar 1. desember, ég væri að fá Bokhandlerprisen, og ég segist vel geta hugsað mér það. Ég hélt að þetta væri svona óskarsverðlaunaathöfn, að allir sem væru tilnefndir kæmu og gengju eftir rauðum dregli og svo væri sigurvegarinn tilkynntur,“ rifjar höfundurinn upp.

„Nei, þú færð verðlaunin,“ segir hann svo frá. „Já ókei, sagði ég og þakkaði bara fyrir mig og fór og sagði mömmu frá þessu. Mamma fór að hágráta af gleði en mér fannst þetta bara gaman. Ég skildi ekkert – og ekki fyrr en löngu seinna – hvaða þýðingu þetta hafði, hvaða verðlaun ég var að fá. Þetta eru risastór verðlaun hérna í Noregi en ég skildi það ekki fyrr en árið eftir hve stór þau eru. Ég skildi það nefnilega fyrst þegar ég fékk þau ekki árið 2011,“ segir Jan-Erik Fjell, glæpasagnahöfundur í Fredrikstad í Noregi sem síðan hefur komið ár sinni rækilega fyrir borð og nýverið gefið út metsölubók í samstarfi við Jørn Lier Horst.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert