Fjórir menn hafa nú verið ákærðir fyrir ýmist manndráp eða tilraun tilmanndráps í máli Jonasar Aarseths Henriksens í Nes í Ådal í norska fylkinu Buskerud, en þar fannst lík Henriksens, sem var þrítugur atvinnurekandi, eftir að hann hafði verið ginntur á vettvang undir því yfirskini að ræða hugsanlegt verkefni við einn ákærðu.
Rak Henriksen fyrirtækið Henriksen Solutions AS sem boraði meðal annars vatnsbruna auk þess sem Henriksen var með nokkrar vörubifreiðar á sínum snærum.
Er einn fjórmenninganna ákærður fyrir manndráp, hann er grunaður um að hafa setið fyrir Henriksen í sumarbústað, sem hann svo fannst myrtur við, og skotið hann fjórum skotum.
Jon Anders Hasle er verjandi mannsins og segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að ákæran hafi komið þeim skjólstæðingi hans í opna skjöldu.
„Ég get staðfest að hún er móttekin. Ég vil ekki fara í nein smáatriði en get sagt að ákæran kemur okkur mjög á óvart. Ég vil ekki segja neitt að svo búnu nema að við erum mjög ósammála orðalagi ákærunnar.“
Réttargæslulögmaður fjölskyldu Henriksens er Stefar Ivar Borgen og segir hann þungbært að lesa ákæruna svart á hvítu. „Hún færir okkur í huganum að því sem gerðist 17. ágúst og það á mjög harkalegan hátt. Tilfinningalegu stöndum við nú í þeirri atburðarás miðri,“ segir lögmaðurinn fyrir hönd skjólstæðinga sinna.
Norskir fjölmiðlar fjölluðu um það í fyrra, og var það einnig gert hér á mbl.is, að Henriksen hefði lifað í ótta síðustu mánuði lífs síns.
Skemmdarverk höfðu ítrekað verið unnin á bifreiðum hans og óþekktir einstaklingar höfðu haft í hótunum við hann. Hafði Henriksen lagt fram ellefu kærur vegna þessara mála hjá lögreglunni á svæðinu en hann bjó í Hønefoss í Buskerud.