Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, er sagður ætla að ráðast í miklar breytingar á ráðherraskipan ríkisstjórnar sinnar á morgun. Öll spjót virðast beinast að honum um þessar mundir og er hann í kröppum dansi innan flokks.
Heimildarmenn AFP-fréttaveitunnar segja að hann muni tilkynna breytingarnar á morgun.
Talið er að allt að tólf nýir ráðherrar verði skipaðir á morgun en ríkisstjórnin samanstendur af 35 ráðherrum. Þeim sem hafa gefið til kynna að þeir muni ekki sækjast eftir endurkjöri árið 2025 verður skipt út og þá verður létt „byrðum“ af ráðherrum sem kunna að sinna skyldum tveggja ráðuneyta í einu.
Chrystia Freeland, fjármála- og varaforsætisráðherra Kanada, sagði af sér í óvæntri tilkynningu í vikunni vegna ágreinings við Trudeau. Hún hefur staðið við hlið hans í tæpan áratug en þau áttu ekki samleið með það hvernig Kanada ætti að bregðast við ógninni af mögulegu tollastríði við Bandaríkin.
Þetta var í fyrsta sinn sem meðlimur í ríkisstjórn mótmælti Trudeau opinberlega en nú er talið að hátt í þriðjungur þingflokks Frjálslynda flokksins, flokks Trudeau, vilji sjá hann segja af sér.
Á mánudag tilkynnti húsnæðisráðherra að hann væri hættur í stjórnmálum, en sex aðrir ráðherrar í ríkisstjórn Trudeau hafa einnig tilkynnt að þeir muni ekki sækjast eftir endurkjöri.
Dominic LeBlanc almannavarnaráðherra hefur þegar svarið embættiseið sem nýr fjármálaráðherra. Tekur hann sömuleiðis við taumunum af Freeland um samningaviðræður við komandi ríkisstjórn Trumps.
Þingkosningar eru áætlaðar í október á næsta ári en álitsgjafar telja líklegt að boðað verði til kosninga fyrr.
Samkvæmt könnunum nýtur Frjálslyndi flokkurinn aðeins um 23% fylgis á sama tíma og Íhaldsflokkurinn mælist með um 43% fylgi undir forystu nýja formannsins, Pierre Poilievre.