Áfram versnar staða ríkisstjórnar Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, en Nýir Demókratar (NDP), flokkurinn sem ver ríkisstjórnina vantrausti, tilkynnti í dag að þeir myndu ekki gera það áfram. Þingið er hins vegar komið í jólafrí og því ekki hægt að kjósa um vantraust fyrr en á nýju ári.
Frjálslyndi flokkur Trudeau er ekki með hreinan meirihluta á kanadíska þinginu en NDP hefur varið stjórnina vantrausti.
„Trudeau brást helsta hlutverki forsætisráðherra: að vinna fyrir fólkið, ekki þá voldugu. NDP mun kjósa að fella þessa ríkisstjórn og gefa Kanadamönnum tækifæri til að kjósa ríkisstjórn sem mun vinna fyrir þá,“ sagði Jagmeet Singh, leiðtogi NDP, í tilkynningu í dag.
Dagblaðið Wall Street Journal greinir frá.
Þing kemur saman aftur í lok janúar og Singh sagði að NDP myndi leitast við að koma Trudeau frá völdum sem fyrst. Singh hefur á árinu ítrekað varið ríkisstjórn Trudeau vantrausti.
Pierre Poilievre, leiðtogi Íhaldsflokksins, gagnrýndi Singh fyrir að bíða með þessa yfirlýsingu þar til þingið færi í hlé, en það fór í hlé í þessari viku.
Fyrir 11 dögum var vantrauststillaga lögð fyrir þingið og þá greiddi Singh atkvæði gegn henni.
Innan flokks er talið að hátt í þriðjungur þingflokks Frjálslynda flokksins vilji sjá hann segja af sér.
Trudeau gerði miklar breytingar á ríkisstjórn sinni í dag en hann skipaði átta nýja ráðherra, lét nokkra ráðherra víkja sem höfðu tilkynnt að þeir myndu ekki sækjast eftir endurkjöri og færði ákveðnar skyldur sem voru á herðum annarra ráðherra á þá nýju.
Samkvæmt könnunum nýtur Frjálslyndi flokkurinn aðeins um 23% fylgis á sama tíma og Íhaldsflokkurinn mælist með um 43% fylgi undir forystu nýja formannsins, Pierre Poilievre.