Maður á fertugsaldri var í gær úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald fyrir Héraðsdómi Þrændalaga í Noregi, grunaður um að hafa orðið konu á þrítugsaldri að bana á heimili hennar í Stjørdal þar sem lögregla kom að henni þungt haldinni eftir að hafa fengið tilkynningu frá nágranna um klukkan 20 á þriðjudagskvöld. Var grunaði handtekinn á vettvangi.
Var konan úrskurðuð látin á sjúkrahúsi snemma á miðvikudagsmorgun en þangað var hún flutt með þyrlu á þriðjudagskvöldið eftir að viðbragðsaðilar á vettvangi höfðu veitt henni fyrstu hjálp.
Við eftirgrennslan lögreglu kom í ljós að konan hafði áður fengið nálgunarbannsúrskurð gegn grunaða.
„Ákæruvaldið krefst gæsluvarðhalds á grundvelli þess að óttast er að grunaði spilli sönnunargögnum í málinu gangi hann laus,“ segir Kristine Shanika Østergård, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í Þrændalögum, við norska ríkisútvarpið NRK.
Að sögn Anders Kjøren, skipaðs verjanda mannsins, sætti skjólstæðingur hans yfirheyrslu á miðvikudaginn og hefur gert lögreglu grein fyrir atburðarásinni á þriðjudaginn. Kveður verjandinn hann þó ekki hafa tekið sakarafstöðu í málinu, það er að segja lýst sig sekan eða saklausan af að hafa ráðið konuna af dögum.
Eins er óljóst um sakhæfi mannsins, en hann hefur að eigin ósk fengið aðstoð fagfólks á sviði geðrænna vandamála eftir handtökuna.
Segir Kjøren skjólstæðing sinn vera með böggum hildar vegna málsins.