Clinton fluttur á sjúkrahús

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sést hér á landsfundi Demókrataflokksins …
Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sést hér á landsfundi Demókrataflokksins fyrr á þessu ári. AFP/CHARLY TRIBALLEAU

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, var fyrr í dag fluttur á sjúkrahús, en hann var kominn með háan hita. 

Clinton, sem er 78 ára gamall, hefur glímt við heilsufarsvandræði á síðustu árum. Angel Urena, aðstoðarstarfsmannastjóri Clintons, sagði á samfélagsmiðlum sínum að Clinton hefði verið fluttur á Georgetown-háskólasjúkrahúsið vegna hitans, og undirgekkst hann þar skoðun.

Er Clinton nú undir eftirliti lækna á sjúkrahúsinu og sagði Urena að Clinton væri í góðu skapi. 

Clinton þurfti að dveljast á sjúkrahúsi í október 2021 í fimm daga vegna sýkingar í blóði, og þá fékk hann Covid-19 í nóvember 2022. 

Árið 2004 þurfti Clinton að fara í hjáveituaðgerð á hjarta og árið 2010 var grætt í hann stoðnet í hjartaslagæðina. Clinton ákvað eftir veikindin 2004 að gera breytingar á lífstíl sínum, og gerðist m.a. grænmetisæta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert