„Komum þeim öllum heim“

Mótmæli fyrir framan varnarmálaráðuneytið í Tel Aviv í Ísrael um …
Mótmæli fyrir framan varnarmálaráðuneytið í Tel Aviv í Ísrael um helgina. Fólkið krafðist þess að gíslunum yrði sleppt. AFP/Jack Guez

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, upplýsti ísraelska þingið í gær um nokkurn gang í samningaviðræðum um lausn gísla sem hafa verið í haldi á Gasasvæðinu í rúma 14 mánuði.

Ríma ummæli forsætisráðherrans við þá orðræðu sem undanfarið hefur borist innan úr herbúðum hryðjuverkasamtakanna Hamas um framfarir í átt að samkomulagi um vopnahlé og lausn gísla.

„Ástvinir ykkar eru ástvinir okkar“

Óbeinar samningaviðræður milli Ísraels og Hamas, fyrir milligöngu Katar, Egyptalands og Bandaríkjanna, hafa staðið yfir í Doha í Katar, sem kveiktu á ný von um samkomulag.

„Það er ekki hægt að gefa upp allt sem verið er að gera. Við vinnum að því að endurheimta gíslana. Ég vil segja með varfærni að nokkrar framfarir hafa orðið. Við munum ekki hætta að fyrr en við komum þeim öllum heim,“ sagði Netanjahú á þinginu.

„Við fjölskyldur gíslanna vil ég segja: Við hugsum til ykkar og munum ekki gefast upp á ástvinum ykkar, sem eru ástvinir okkar einnig.“

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. AFP

Nær fangaskiptum en nokkru sinni

 Á laugardag greindu hryðjuverkasamtökin Hamas og fleiri áhrifahópar í Palestínu frá því að betri gangur væri í viðræðunum.

„Möguleikinn á að ná samkomulagi um vopnahlé og fangaskipti er nær en nokkru sinni fyrr, að því gefnu að óvinurinn hætti að setja ný skilyrði,“ sögðu hóparnir eftir viðræður í Kaíró.

Í fordæmalausri árás Hamas á Ísrael 7. október á síðasta ári var 251 tekinn til fanga, 96 þeirra eru enn gíslar á Gasasvæðinu. 34 af þeim 96 hafa verið úrskurðuð látin af ísraelska hernum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert