Lestarstjóri í Frakklandi tók eigið líf á aðfangadagskvöld með því að stökkva út úr lest sem hann stjórnaði á fullri ferð.
Ferðir um 3.000 farþega í tíu hraðlestum á milli Parísar og suðausturhluta Frakklands töfðust um allt að fimm klukkustundir vegna sjálfsvígsins.
Lestin stöðvaði af sjálfu sér eftir að lestarstjórinn stökk út, en sérstakur neyðarbúnaður kemur í veg fyrir að lestin haldi leið sinni áfram ef enginn er undir stýri.
Lík lestarstjórans fannst við lestarsporin en rannsókn á aðdraganda andlátsins stendur yfir.
Embætti landlæknis bendir á að mikilvægt sé að þeir sem glíma við sjálfsvígshugsanir segi einhverjum frá líðan sinni, hvort sem er aðstandanda eða hafi samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717, eða á netspjalli 1717.is, við hjúkrunarfræðing í netspjalli á heilsuvera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-samtakanna s. 552-2218. Píeta-samtökin bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyrir aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir.
Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi bendir landlæknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-samtökunum í síma 552-2218.