Sæstrengurinn Estlink 2 sem flytur rafmagn frá Finnlandi til Eistlands er bilaður. Arto Pankin, framkvæmdastjóri Fingrid, sem sér um dreifikerfi raforku í Finnlandi, segir ekki hægt að útiloka að um skemmdarverk eða hugsanlega hryðjuverk sé að ræða.
Þetta kemur fram á vef finnska ríkismiðilsins Yle.
Pankin segir í samtali við miðilinn að tvö skip hafi verið steinsnar frá sæstrengnum þegar bilunin varð. Hann vill ekki gefa upp hvaða skip það voru að svo stöddu.
Miðillinn greinir frá því að samkvæmt vef sem heldur utan um ferðir skipa bendi margt til þess að annað skipið sé skráð í Hong Kong og hafi verið á leið til Sankti Pétursborgar.
Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands, sagði í færslu á X að þrátt fyrir að nú væru jól væru yfirvöld að rannsaka málið. Þá sagði hann jafnframt að bilunin hefði ekki áhrif á raforkudreifingu í Finnlandi.
Suomen ja Viron välinen Estlink 2-sähkönsiirtoyhteys on pudonnut iltapäivällä verkosta. Viranomaiset ovat joulunakin hereillä ja selvittävät asiaa. Siirtoyhteyden katkeaminen ei vaikuta suomalaisten sähkönsaantiin.
— Petteri Orpo (@PetteriOrpo) December 25, 2024