20 ár frá mannskæðum flóðbylgjum í Asíu

Kveikt var á kertum í minningu þeirra sem létu lífið.
Kveikt var á kertum í minningu þeirra sem létu lífið. AFP/Lillian Suwanrumpha

Í dag eru 20 ár síðan að öflugur jarðskjálfti olli 10 metra háum flóðbylgjum víða um Asíu. Þetta voru mannskæðustu náttúruhamfarir þessarar aldar þar sem yfir 230 þúsund manns létu lífið. 

Jarðskjálftinn mældist 9,1 stig á Richter-kvarða og átti upptök sín á botni Indlandshafs undan Aceh-héraði í Indónesíu. Hann var sá stærsti sem hefur mælst frá upphafi mælinga og sá þriðji stærsti sem hefur mælst í Asíu. 

Flóðbylgjurnar riðu yfir Sri Lanka, Indland, Taíland, Indónesíu, Maldíveyjar, Myanmar og Malasíu sem ollu miklum skemmdum og eyðilögðu heimili fólks. Fjöldi þorpa og bæja þurrkuðust út og tók það mörg ár að byggja upp svæðið á ný.

20 ár eru frá mannskæðustu náttúruhamförum aldarinnar.
20 ár eru frá mannskæðustu náttúruhamförum aldarinnar. AFP/Lillian Suwanrumpha

Yfirvöld fóru í gríðarlegt hjálpar og  björgunarstarf þegar flóðbylgjurnar skullu á en það tók nokkra daga að koma björgunarliðum til allra eyjanna. Enn fremur reyndist erfitt að koma lífsnauðsynlegum búnaði til eyjanna þar sem mikið af tækjabúnaði reyndist ónothæfur.

Komu upp viðvörunarkerfi eftir hamfarirnar 

Nokkrar klukkustundir liðu frá því að jarðskjálftinn reið yfir og þar til að flóðbylgjurnar skullu á en ekkert viðvörunarkerfi var fyrir slíkt í Indlandshafi á þeim tíma. Tveimur árum eftir flóðbylgjurnar var komið á alþjóðlegu viðvörunarkerfi sem getur greint jarðskjálfta og sent út viðvaranir til íbúa á skömmum tíma. 

Fólk kom saman í minningargarðinum Ban Nam Khem Tsunami í …
Fólk kom saman í minningargarðinum Ban Nam Khem Tsunami í Taílandi í dag til að minnast þeirra sem létu lífið í flóðunum. AFP/Lillian Suwanrumpha

Blaðamaður BBC var á staðnum þegar skjálftinn og flóðin skullu á:

„Þetta var ótrúleg sjón. Þúsundir manna stóðu við hliðina á mér og horfðu gapandi á það sem var að gerast [...]. Ég hitti níu ára stúlku sem varð fyrir áfalli, húsið hennar fylltist af vatni og hún sagði mér að hún hefði nærri drukknað. Kona sagði mér að hún hefði misst allt sem hún átti á einu augnabliki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert