„Við mun­um grípa inn í“

Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands, á blaðamannafundinum í dag.
Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands, á blaðamannafundinum í dag. AFP

Finnsk yfirvöld eru að rannsaka olíuflutningaskip sem sigldi frá rússneskri höfn vegna skemmdarverka á sæstreng sem tengir Finnland og Eistland. Við rannsókn kom í ljós að það vantaði akkeri á skipið.

Í gær var greint frá því að sæstrengurinn Estlink 2 væri bilaður og að ekki væri útilokað að um skemmdarverk að hugsanlega hryðjuverk væri að ræða.

„Mjög alvarleg“

Markku Hassinen, fulltrúi finnsku landamæragæslunnar, sagði í dag á blaðamannafundi að það væri augljós ástæða til að áætla að eitthvað undarlegt hafi gerst.

„Við fórum á svæðið með varðskipinu og gátum séð að það vantaði akkeri á skipið,“ sagði hann.

Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands, sagði á blaðamannafundinum í dag að bilun strengsins væri „mjög alvarleg“.

„Þess vegna eru afgerandi og ákveðnar aðgerðir yfirvalda í dag og í gær gagnvart þessu skipi á landhelgi okkar sterk skilaboð til annarra skipa: Við munum grípa inn í,“ sagði hann.

Hann sakaði Rússa ekki sérstaklega og sagði að engin samtöl hefðu átt sér stað milli ríkjanna eftir að málið kom upp.

Kaja Kallas, utanríkisrmálastjóri Evrópusambandsins.
Kaja Kallas, utanríkisrmálastjóri Evrópusambandsins. AFP

Evrópusambandið hótar refsiaðgerðum

Evrópusambandið hótaði í dag frekari refsiaðgerðum gegn rússneskum skipum.

„Við fordæmum harðlega hvers kyns vísvitandi eyðileggingu mikilvægra innviða Evrópu,“ segja framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og utanríkismálastjóri sambandsins, Kaja Kallas, í sameiginlegri yfirlýsingu.

Þá kom jafnframt fram að skipið væri hluti af „skuggaflota Rússa“ sem ógni öryggi og fjármagni stríðsrekstur Rússa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert