Jeffries ber fyrir sig heilabilun

Jeffries var handtekinn fyrr á árinu vegna gruns um kynferðisbrot …
Jeffries var handtekinn fyrr á árinu vegna gruns um kynferðisbrot og mansal. AFP

Fyrrverandi forstjóri Abercrombie og Fitch (A&F), Mike Jeffries, er sagður vera með heilabilun og Alzheimersjúkdóm.  

Þetta kemur fram í dómsskjali sem var lagt fram í New York en Jeffires hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot og mansal karlkyns fyrirsæta. Er Jeffries sakaður um að hafa flutt fyrirsæturnar á milli svallveislna víða um heim. 

Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Lögfræðingar Jeffries hafa óskað eftir því að fá það úrskurðað hvort hann sé andlega hæfur að svara fyrir meint kynferðisbrot fyrir dómi. Svokallaður hæfnisfundur mun fara fram í júní á næsta ári.  

Voru ekki færir um að veita samþykki

Ásamt Jeffries var Matthew Smith, maki Jeffries, handtekinn og samverkamaður þeirra Jacob Jacobsson. Mennirnir þrír hafa allir lýst sig sem saklausa í málinu.  

Talið er að mennirnir hafi blekkt fyrirsæturnar með gylliboðum um atvinnutækifæri, frægð og frama til þess að sækja umræddar veislur. Var fyrirsætunum ekki gerð grein fyrir eðli veislnanna áður en þær sóttu þær, að því sem kemur fram í ákærunni. 

Er þríeykið sakað um að hafa otað áfengi og eiturlyfjum að fyrirsætunum og að þær hafi hvorki gefið né verið færar um að gefa samþykki fyrir þeim kynlífsathöfnum sem fóru fram í veislunum. 

Í ákærunni er vísað til fimmtán brotaþola. 

Eru mennirnir þrír sagðir hafa varið milljónum dollara í framkvæmd mansalsins til að tryggja gang þess og leynd. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert