Yfirvöld í Finnlandi héldu blaðamannafund í hádeginu í dag vegna sæstrengsins Estlink 2 sem bilaði í gær. Þar sagði Robin Lardot, framkvæmdastjóri rannsóknardeildar finnska ríkislögreglustjórans, að grunur léki á um að strengurinn hafi slitnað vegna utanaðkomandi afla.
Finnsk yfirvöld hafa þegar kyrrsett eitt skip sem grunur liggur á um að hafa rofið sæstrenginn. Lögreglan í Finnlandi mun nú sigla því inn á finnskt hafsvæði til að halda rannsókninni áfram.
Tvö flutningaskip voru steinsnar frá sæstrengnum þegar bilunin varð og var annað þeirra á leið frá Pétursborg í Rússlandi til Egyptalands.
Finnski ríkislögreglustjórinn var spurður út í mögulega tengingu við Rússa en vildi lítið tjá sig um málið. Sagði hann þó að ekki hafi verið haft samband við yfirvöld í Rússlandi vegna málsins og taldi hann ólíklegt að svo yrði gert.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sæstrengur rofnar við Finnland á árinu en í nóvember var greint frá því að sæstrengur hefði rofnað á milli Finnlands og Þýskalands þar sem grunur lék á að um skemmdarverk væri að ræða.