Telja að flugvélin gæti hafa verið skotin niður fyrir slysni

Brak flugvélarinnar.
Brak flugvélarinnar. AFP

Þjóðarsorg ríkir í Aserbaídsjan í dag eftir að flugvél á vegum flugfélags Aserbaídsjan hrapaði í vesturhluta Kasakstan í gær með þeim afleiðingum að 38 af 67 sem um borð voru í vélinni fórust.

Sam­gönguráðuneyti Kasakst­an sagði í gær að í flug­vél­inni hafi verið 37 rík­is­borg­ar­ar Aser­baíd­sj­an, sex frá Kasakst­an, þrír frá Kirg­ist­an og 16 frá Rússlandi. 

Rannsókn á orsökum flugslyssins er þegar hafin en sumir flug- og hersérfræðingar segja að flugvélin gæti hafa verið skotin fyrir slysni af rússneskum loftvarnarkerfum þar sem hún var á flugi á svæði þar sem tilkynnt hafði verið um úkraínska dróna.

„Við þurfum að bíða eftir að rannsókninni ljúki,“ segir Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar.

Rússneski hernaðarsérfræðingurinn Júrí Podolyaka segir að holur sem sáust á flaki flugvélarinnar væru svipaðar skemmdum af völdum loftvarnarflaugakerfis.

Flugfélagið greindi frá því að 67 manns hafi verið um borð í vélinni, 62 farþegar og fimm áhafnarmeðlimir.

lham Aliyev, forseti Aserbaídsjan, lýsti í dag yfir sorgardegi í landinu og aflýsti fyrirhugaðri heimsókn til Rússlands vegna óformlegs leiðtogafundar Samveldis sjálfstæðra ríkja (CIS), hóps fyrrverandi Sovétríkjanna.

„Ég votta fjölskyldum þeirra sem létu lífið í slysinu samúð mína og óska ​​þeim slösuðu skjóts bata,“ sagði Aliyev í færslu á samfélagsmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert