Kristilegir demókratar eru með langmesta stuðninginn í Þýskalandi og þjóðernisflokkurinn Alternative für Deutschland (AfD) mælist með meiri stuðning en Verkamannaflokkur Olaf Scholz.
Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, hefur leyst upp sambandsþingið og Þjóðverjar munu því ganga til kosninga þann 23. febrúar 2025.
Þetta gerist í kjölfar þess að ríkisstjórn Olafs Scholz kanslara sprakk í síðasta mánuði og vantraust var samþykkt á hendur Scholz fyrr í desember.
Politico tekur saman meðaltal kannanna í Þýskalandi og samkvæmt því þá eru Kristilegir Demókratar með 31% stuðning og AFD með 19% stuðning. Báðir flokkar eru hægra megin við miðjuna á hinum pólitíska ás en þó er ólíklegt að AFD fengi að fljóta með í ríkisstjórn.
Verkamannaflokkurinn, sem leiddi ríkisstjórnina sem sprakk í síðasta mánuði, myndi gjalda afhroð í kosningum en hann mælist með 17% stuðning. Í síðustu kosningum fékk hann 25,7%.
Flokkur frjálslyndra demókrata sleit stjórnarsamstarfinu í nóvember, eftir að Scholz rak Christian Lindner fjármálaráðherra úr embætti, og flokkurinn mælist aðeins með 4% fylgi núna.
Græningjar, sem einnig voru í ríkisstjórninni, mælast með 13% fylgi en þeir fengu tæplega 15% í síðustu kosningum.
BSW, sem er klofningsframboð frá Vinstriflokknum, mælist með 6% fylgi og Vinstriflokkurinn mælist með 3% fylgi.
Miðað við kannanir núna þá bendir allt til þess að Friedrich Merz, leiðtogi Kristilegra demókrata, verði kanslari en flokkurinn þyrfti að mynda ríkisstjórn með að minnsta kosti einum öðrum flokki.
Í frétt ABC segir að meðal lykilmála í kosningunum séu útlendingamál, efnahagsmál og stuðningur við Úkraínu.