Hægt var að nálgast upplýsingar um 800.000 rafbíla á vegum Volkswagen víða um Evrópu þar sem hægt var að sjá upplýsingar um ökuferðir bílanna, hvar þeim var lagt og hvenær en einnig var hægt að nálgast upplýsingar um tengiliðaskrá ökumanna bílanna. Gagnalekinn var óvarinn á netinu í marga mánuði.
Þýski miðillinn Der Spiegel greinir frá málinu en þar kemur fram að um 300.000 bílanna hafi verið í Þýskalandi.
Einnig voru þó upplýsingar um ferðir rafbíla í Svíþjóð, Belgíu, Austurríki, Noregi og Bretlandi svo eitthvað sé nefnt.
Segir miðillinn að gögnin hafi verið óvarin á Amazon-skýinu mánuðum saman þar sem hægt var að nálgast upplýsingar um ferðir bílanna en til þess að hafa fullan aðgang að bílunum þurftu eigendur þeirra að hala niður forriti sem krafðist upplýsinga og safnaði forritið síðan gögnum um ferðir ökumannanna.
Tveir þýskir stjórnmálamenn, þar á meðal fyrrum ráðuneytisstjóri í varnarmálaráðuneyti Þýskalands, eru á meðal eigenda rafbílanna og var hægt að sjá m.a. hvaða staði stjórnmálamennirnir heimsóttu og hvenær.
Þá er í tilfellum 460.000 rafbíla hægt að sjá nákvæmar staðsetningar bílanna sem gerir þeim sem hafa aðgang að upplýsingum kleift að álykta með nokkuð öruggum hætti um líf ökumannanna á bak við stýrið.
Gagnalekinn á rætur sínar að rekja til mistaka dótturfélags Volkswagen, Cariad, sem var komið á fót til þess að hanna ákveðinn vettvang með þúsundum af hugbúnaðarframleiðendum fyrir rafbíla fyrirtækisins.
Ónefndur uppljóstrari deildi hinum viðkvæmu upplýsingum með þýska hakkarahópnum Chaos Computer Club (CCC) og Spiegel-miðlinum.
Nadja Weippert, einn stjórnmálamannanna sem finna má í gagnalekanum, segist í samtali við miðilinn vera í sjokki yfir fréttunum og krefst þess að Volkswagen safni minni gögnum um ferðir bíla sinna og geri þá gögnin einnig nafnlaus.
Þá segir stjórnmálamaðurinn og fyrrum ráðuneytisstjóri þýska varnarmálaráðuneytisins, Markus Grübel, að gagnalekinn sé „pirrandi og vandræðalegur.“
Eins segir þýski miðillinn að fleiri stjórnmálamenn, atvinnurekendur og lögreglan í Hamborg, sem notaðist við 35 rafbíla frá bílaframleiðandum, séu í gagnalekanum.
Eru flest gögnin frá árinu 2024 en einhver þeirra ná lengra aftur í tímann.
Þá þykir málið alvarlegt að því leyti til að glæpahópar og njósnarar hefðu getað nýtt sér upplýsingarnar en erlendar leyniþjónustur hefðu t.a.m. getað séð ökumann þess bíls sem lagði daglega á milli klukkan 8 og 17 við byggingar þýsku alríkisleyniþjónustunnar, eins og gögnin sýndu.
Einnig hefðu upplýsingarnar nýst hópum til fjárkúgunar t.d. með því að sjá hvaða bílar voru lagðir fyrir framan vændishús, fangelsi eða meðferðarstofnanir.
Einnig bendir miðillinn á að eltihrellar eða öfundsjúkir fyrrum makar hefðu getað séð í gagnalekanum hvar fólk væri og hvenær.
Þá var einnig að finna upplýsingar um bíla sem staðsettir voru í Úkraínu og Ísrael, sem þýðir að gagnalekinn hefði getað vakið hernaðarlega forvitni.
Greint er frá enn fremur að þegar CCC komst að gagnalekanum hafi tveir liðsmenn hópsins haft samband við Cariad og veitt fyrirtækinu ráð um hvernig skyldi loka fyrir upplýsingarnar og gaf hópurinn fyrirtækinu 30 daga til að bregðast við áður en almenningur yrði látinn vita.
Einnig lét CCC stjórnstöð Volkswagen og önnur yfirvöld vita af lekanum en CCC hefur í mörg ár veitt fyrirtækjum aðstoð með upplýsingatæknikerfi þeirra.
Þá segir að Cariad hafi hins vegar brugðist við innan fárra klukkutíma og hafi þá ekki einu sinni reynt að gera lítið úr málinu. Hlaut fyrirtækið frekari ráð frá CCC og náði að loka fyrir upplýsingarnar og hefur Cariad verið þakkað fyrir skjót viðbrögð í málinu.
Cariad segir jafnframt að ástæðan fyrir gagnasöfnuninni hafi m.a. verið til að bæta hugbúnað bílanna en tók fram að það sé ekki ætlunin hjá fyrirtækinu að fólk geti dregið ályktanir um einstaka einstaklinga út frá ökuferðum þeirra.