Trump muni ganga á eftir dauðarefsingum

Trump vill leiðbeina dómsmálaráðuneytinu að ganga á eftir dauðarefsingum.
Trump vill leiðbeina dómsmálaráðuneytinu að ganga á eftir dauðarefsingum. AFP/REBECCA NOBLE

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, segir að eftir að hann tekur við völdum þann 20. janúar næstkomandi, muni hann leiðbeina dómsmálaráðuneytinu að ganga á eftir dauðarefsingum. Reuters greinir frá.

Þannig vill hann meina að hægt sé að vernda Bandaríkjamenn gegn „ofbeldisfullum nauðgurum, morðingjum og skrímslum.“

Þessa yfirlýsingu birti Trump á samfélagsmiðlinum Truth Social, sem svar við tilkynningu Joe Bidens, forseta Bandaríkjanna, um að hann hefði mildað dóma yfir 37 af 40 föngum með dauðadóm og breytt þeim í lífstíðarfangelsi án reynslulausnar.

„Um leið og ég tek við embætti mun ég beina því til dómsmálaráðuneytisins að sækjast eftir dauðarefsingum af krafti til að vernda bandarískar fjölskyldur og börn gegn ofbeldisfullum nauðgurum, morðingjum og skrímslum,“ sagði Trump.

Eftir tæplega 20 ára hlé hófust aftökur á ný á fyrsta kjörtímabili Trump, frá 2017 til 2021.

Þá setti Biden aftökur á bið þegar hann tók við embættinu í janúar 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka