Ítölsk blaðakona að nafni Cecilia Sala hefur verið hneppt í varðhald í Íran. Sala hefur verið að ferðast um höfuðborgina Teheran þar sem hún hefur tekið viðtöl við íranskar konur og birt meðal annars á Instagram-síðu sinni.
Í yfirlýsingu frá ítalska utanríkisráðuneytinu segir að Sala hafi verið að ferðast um borgina þegar lögreglan í Teheran stöðvaði hana og handtók. Ráðuneytið vinnur nú með írönskum yfirvöldum við að skýra réttarstöðu Sala og sannreyna skilyrði fyrir varðhaldi hennar.
Sala starfar meðal annars fyrir ítalska hlaðvarpsútgefandann Chora Media. Talsmenn fyrirtækisins segja að Sala hafi haldið frá Róm og til Írans 12. desember með vegabréfsáritun til blaðamennsku og átti hún að snúa aftur til síns heima 20. desember.
Þann 19. desember heyrðist ekkert frá Sala og hringdi hún síðar í móður sína og upplýsti hana um handtökuna. Hún er vistuð í Evin-fangelsinu í Teheran, þar sem andófsmenn eru gjarnan vistaðir, en ástæða handtökunnar hefur enn ekki verið skýrð af hálfu íranskra yfirvalda.
Varnarmálaráðherra Ítalíu sagði í gær að ríkisstjórnin öll ynni að því að frelsa Sala og sagði fangelsun hennar „óásættanlega“.