Upplifði sig algjörlega berskjaldaðan í árásinni

Ghebreyesus segir að litlu hefði mátt muna að hann hefði …
Ghebreyesus segir að litlu hefði mátt muna að hann hefði ekki lifað árásina af. AFP

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO, segist hafa upplifað sig algjörlega berskjaldaðan þegar Ísraelsher hóf loftárásir á Sanaa-flugvöllinn í Jemen á fimmtudag þar sem hann var staddur.

Ghebreysus var staddur í Jemen ásamt starfsfólki á vegum Sameinuðu þjóðanna til að semja um lausn starfsfólks SÞ sem eru þar í haldi.

Allt í óreiðu

Hann fór í viðtal hjá útvarpsstöð BBC í dag þar sem hann lýsir því að hafa „naumlega komist frá dauðanum“ í árásinni. 

„Það var allt í óreiðu, þú veist fólk var í óreiðu og hlaupandi út um allt,“ sagði hann og bætti við að það hafi aðeins verið heppni að flugskeyti hafi ekki endað á höfðinu á honum. 

Ísraelski herinn gerði loftárás á flugvöllinn með það að markmiði að eyðileggja innviði uppreisnarmanna Húta í landinu. Ísraelsmenn segja Húta nota flugvöllinn í þeim tilgangi að smygla vopnum frá Íran til landsins. 

Fréttastofan Saba, sem er í eigu Húta, sagði að þrír hefðu látið lífið í árásinni og 30 særst. Ekki er ljóst hvort um sé að ræða almenna borgara eða menn úr röðum Húta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka