Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO, segist hafa upplifað sig algjörlega berskjaldaðan þegar Ísraelsher hóf loftárásir á Sanaa-flugvöllinn í Jemen á fimmtudag þar sem hann var staddur.
Ghebreysus var staddur í Jemen ásamt starfsfólki á vegum Sameinuðu þjóðanna til að semja um lausn starfsfólks SÞ sem eru þar í haldi.
Hann fór í viðtal hjá útvarpsstöð BBC í dag þar sem hann lýsir því að hafa „naumlega komist frá dauðanum“ í árásinni.
„Það var allt í óreiðu, þú veist fólk var í óreiðu og hlaupandi út um allt,“ sagði hann og bætti við að það hafi aðeins verið heppni að flugskeyti hafi ekki endað á höfðinu á honum.
Ísraelski herinn gerði loftárás á flugvöllinn með það að markmiði að eyðileggja innviði uppreisnarmanna Húta í landinu. Ísraelsmenn segja Húta nota flugvöllinn í þeim tilgangi að smygla vopnum frá Íran til landsins.
Fréttastofan Saba, sem er í eigu Húta, sagði að þrír hefðu látið lífið í árásinni og 30 særst. Ekki er ljóst hvort um sé að ræða almenna borgara eða menn úr röðum Húta.