Georgíumenn mótmæla nýjum forseta landsins

Mikheil Kavelashvili, nýkjörinn forseti Georgíu.
Mikheil Kavelashvili, nýkjörinn forseti Georgíu. AFP/Ikrali Gedenidze

Þúsundir Georgíumanna komu saman og mótmæltu í höfuðborginni í Tíblisi í dag þegar nýr forseti landsins var settur í embætti. Salome Zourabichvili, fráfarandi forseti landsins, segir nýja forsetann ólögmætan. 

Mikheil Kavelashvili, fyrrverandi þingmaður fyrir Georgíska drauminn og fótboltamaður, var kjörinn nýr forseti Georgíu af georgíska þinginu fyrr í þessum mánuði en niðurstöður kosninganna eru afar umdeildar í landinu. 

Kavelashvili ávarpaði fjölmiðla eftir embættistökuna þar sem hann sagðist vera forseti allra „óháð hvort fólk sé hrifið af mér eða ekki“. Sagði hann mikilvægt að Georgíumenn sameinuðust um sameiginleg gildi og bæru virðingu hvert fyrir öðru. 

Salome Zourabichvili, fráfarandi forseti landsins.
Salome Zourabichvili, fráfarandi forseti landsins. AFP/Giorgi Arjevanidze

Aðild að ESB deilumál

Mikil mótmæli hafa verið í Georgíu eftir úrslit þingkosninga þar í landi í október en þar bar stjórnarflokkurinn Georgíski draumurinn sigur úr býtum. 

Flokkurinn hefur verið við völd í landinu frá árinu 2012. Hann var í fyrstu frjálslynt afl sem vildi efla tengsl landsins við Vesturlönd en á síðustu tveimur árum hefur flokkurinn tekið stefnubreytingum í átt að forræðishyggju og Rússlandi. 

Meirihluti Georgíumanna er hliðhollur inngöngu landsins í ESB og vill hefja aðildarviðræður við sambandið. Eftir kosningarnar í október sögðu þingmenn Georgíska draumsins að ekki yrði sóst eftir aðild að ESB fyrr en eftir fjögur ár eða árið 2028, sem vakti upp mikla óánægju meðal landsmanna. 

Fjöldi fólks kom saman og mótmælti nýja forsetanum.
Fjöldi fólks kom saman og mótmælti nýja forsetanum. AFP/Giorgi Arjevanidze

Draga lögmæti kosninganna í efa

Evrópusambandið og stjórnarandstaðan í Georgíu hafa dregið réttmæti kosninganna í efa. Hefur Evrópuþingið kallað eftir því að kosningarnar verði endurteknar auk þess sem ESB hefur hvatt til aðgerða gegn Georgíska draumnum. 

Á kjördag bárust fréttir af því að fulltrúar stjórnarflokksins hefðu ruðst inn á kjörstað í þeim tilgangi að troða ólöglegum kjörseðlum ofan í kassana og þar með auka atkvæðafjölda flokksins.

Talsmenn flokksins hafa neitað öllum ásökunum um svindl.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert