Ilham Aliyev, forseti Aserbaísjans, krefst þess að Rússar viðurkenni að hafa skotið á farþegaþotu flugfélagsins Azerbaijan Airlines áður en hún brotlenti.
Sakar hann stjórnvöld í Kreml um að hafa reynt að hylma yfir orsakir hörmunganna.
Fjórir dagar eru síðan flugvélin hrapaði í Kasakstan er hún reyndi að lenda í Grozní í Tsjetsjeníu og létust 38 manns af 67 sem voru um borð.
Aliyev hvetur rússnesk stjórnvöld til þess að biðja Aserbaísjan opinberlega afsökunar og sagði hann í viðtali í dag að stjórnvöld hefðu lagt fram kröfu til Rússlands þess efnis á föstudaginn.
„Fyrst og fremst verður Rússland að biðja Aserbaísjan afsökunar. Í öðru lagi verður [Rússland] að viðurkenna sekt sína. Í þriðja lagi þarf að refsa þeim sem bera ábyrgð, draga þá til dóms og greiða bætur til Aserbaísjanríkis sem og til farþeganna og áhafnarinnar sem slösuðust. Þetta eru okkar skilyrði,“ sagði Aliyev.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur beðið forseta Aserbaísjan afsökunar á „hræðilegu atviki“ en hefur ekki viðurkennt að Rússar eigi í raun við að sakast.