Tveir lifðu af flugslysið

Viðbragðsaðilar að störfum við brak vélarinnar.
Viðbragðsaðilar að störfum við brak vélarinnar. AFP/Jung Yeon-Je

Aðeins tveir lifðu af flugslysið hörmulega í Suður-Kóreu í dag en 179 manns létu lífið. 

181 var um borð í Boeing 737-800 vél Jeju Air á leiðinni frá Taílandi til Suður-Kóreu þegar vélin nærri því gjöreyðilagðist er hún nauðlenti á flugbrautinni á alþjóðaflugvellinum í Muan.

Á myndbandi af atvikinu má sjá vélina renna á belgnum á flugbrautinni á mikilli ferð og enda á vegg þar sem hún sprakk og mikill eldur blossaði upp.

Tveir flugþjónar lifðu slysið af.  Annar flugþjónninn vaknaði á sjúkrahúsi í dag með fjölmörg beinbrot.

„Þegar ég vaknaði var þegar búið að bjarga mér,“ sagði flugþjónninn við lækna, samkvæmt upplýsingum frá spítalanum.

Hinn flugþjónninn hlaut meiðsli á ökkla og höfði, að sögn Yonhap-fréttastofunnar. 

AFP/Yonhap

Yfirmenn hneigðu sig í virðingarskyni

Rann­sókn stend­ur yfir á til­drög­um slyss­ins en flugmaður­inn sem stjórnaði vél­inni sendi frá sér neyðarboð skömmu áður en vél­in brot­lenti.

Suðurkór­esk­ur sam­göngu­mála­full­trúi greindi frá því fyrr í dag að flugmaður­inn hafi verið að reyna lenda vél­inni þegar flug­um­ferðar­stjór­inn gerði hon­um viðvart að mik­il um­ferð fugla væri í ná­grenni við hann og gæti því skap­ast hætta á því að þeir myndu trufla lend­ingu vél­ar­inn­ar.

Allir farþegarnir voru kóreskir fyrir utan tvo Taílendinga, þriggja ára og 78 ára, að sögn yfirvalda.

Lággjaldaflugfélagið Jeju Air baðst afsökunar á slysinu en stjórnendur flugfélagsins hneigðu sig djúpt á blaðamannafundi í Seúl.

Forstjóri Jeju Air Kim E-bae (fjórði frá vinstri) og aðrir …
Forstjóri Jeju Air Kim E-bae (fjórði frá vinstri) og aðrir yfirmenn flugfélagsins á blaðamannafundi í dag. AFP/Yonhap
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert