Frakki sem var dæmdur fyrir að hafa byrlað þáverandi eiginkonu sinni ólyfjan, nauðgað henni og leyft tugum manna að gera slíkt hið sama í rúman áratug mun ekki áfrýja dóminum sem hann hlaut.
Lögmaður hans greindi frá þessu í morgun.
Dominique Pelicot var dæmdur í 20 ára fangelsi fyrr í þessum mánuði eftir réttarhöld sem vöktu mikinn óhug í Frakklandi og víðar um heim. 50 vitorðsmenn hans hlutu einnig dóma, allt frá þremur árum upp í 15 ár.
Lögmaðurinn Beatrice Zavarro sagði að Pelicot hefði ekki viljað láta eiginkonu sína fyrrverandi, Gisele, ganga í gegnum önnur réttarhöld og því hefði hann ákveðið að áfrýja ekki dóminum sem hann hlaut.