Felldi 20 palestínska vígamenn í stórri aðgerð

Reykur yfir norðurhluta Gasasvæðisins eftir árás Ísraelshers.
Reykur yfir norðurhluta Gasasvæðisins eftir árás Ísraelshers. AFP/Omar Al-Qattaa

Ísraelskar hersveitir felldu um helgina um 20 palestínska vígamenn í áhlaupi á Kamal Adwan-sjúkrahúsið á Beit Lahia-svæðinu í norðurhluta Gasasvæðisins í aðgerð sem herinn vísar til sem einnar þeirrar stærstu á svæðinu síðan stríðið hófst.

Árásin hófst á föstudag en að henni lokinni sagði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) enga eftir í þessari síðustu stóru heilbrigðisstofnun á svæðinu, hvorki sjúklinga né starfsfólk.

Öflug sprengiefni gerð óvirk

„Um 20 hryðjuverkamönnum var útrýmt í aðgerðinni, sem lauk á laugardag, og öflug sprengiefni sem þeir komu fyrir voru gerð óvirk,“ sagði ísraelski herinn í yfirlýsingu.

Sagðist herinn hafa handtekið 240 hryðjuverkamenn sem tilheyra vígahópum hryðjuverkasamtakanna Hamas og íslamska Jihad. Einnig sagðist herinn hafa handtekið forstjóra sjúkrahússins, Hossam Abu Safiyeh, sem herinn grunar að sé vígamaður Hamas.

Ein umfangsmesta aðgerðin

„Þetta er ein umfangsmesta aðgerð til að handtaka hryðjuverkamenn sem framkvæmd hefur verið á einum stað frá upphafi stríðsins,“ sagði í yfirlýsingunni.

Borið var kennsl á 15 vígamenn meðal þeirra handteknu að sögn hersins, sem tóku þátt í árás Hamas á Ísrael 7. október á síðasta ári.

Sagði herinn árásina hafa verið gerða á stjórnstöð hryðjuverkasamtakanna á sjúkrahúsinu en Hamas neita sök.

392 fallið frá upphafi aðgerða á jörðu niðri

Frá 6. október á þessu ári hafa aðgerðir Ísraela á Gasasvæðinu beinst að norðurhluta þess. Þeir segja að árásir þeirra úr lofti og af landi miði að því að koma í veg fyrir að Hamas-hryðjuverkasamtökin sameinist aftur.

Einn ísraelskur hermaður féll í bardaga á svæðinu í dag að sögn Ísraelshers, sá 392. frá því að herinn hóf aðgerðir á jörðu niðri 27. október á síðasta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert