Sést getur til snævar í New York og Washington DC og það verður að líkindum frost og snjór í Evrópu fljótlega á nýja árinu, hugsanlega eftir þrettándann.
Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í samtali við mbl.is.
Spáð er kuldum bæði í austurhluta Norður-Ameríku og í Evrópu vegna mikillar hæðar sem spáð er yfir Íslandi og Grænlandi. Við það kemur kalt loft úr norðri yfir austurhluta Bandaríkjanna og úr austri yfir Evrópu.
Einar segir ekki um óvenjulegt veður að ræða en að þó sé spenningur á þessum svæðum að fá vetur og kulda sem er orðið minna um á síðustu árum og áratugum en áður.
Segir hann mikla umræðu meðal veðurfræðinga beggja vegna Atlantshafsins um trúverðugleika spárinnar og hvað hún muni þá leiða í ljós. Verstu spár segir Einar gera ráð fyrir verstu kuldum um allan austurhluta Norður-Ameríku síðan á áttunda áratug síðustu aldar og í Evrópu í meira en áratug.