„Hjá mér var klippt á jólin þegar ég sá allt þetta særða fólk, allt sem var að gerast. Ég sagði við sjálfan mig að ég yrði að fresta þessu og hugsa um eitthvað annað.“
Þetta segir Henning Busk, hjarta- og brjóstholsskurðlæknir á háskólasjúkrahúsinu í Magdeburg í Þýskalandi. Hann er einn þeirra sem sinntu særðum eftir árásina á jólamarkaðinn 20. desember síðastliðinn. Fimm létust í árásinni og yfir 200 særðust.
Bíl var ekið inn á eina aðalgöngugötuna í Magdeburg þar sem vinsæll og fjölsóttur jólamarkaður er settur upp á ári hverju. Henning segir marga eiga erfitt með að meðtaka að það geti yfir höfuð gerst að einhver aki viljandi á fólk á þessu svæði. Fólk sé skelfingu lostið.
„Það sem kemur líka mjög illa við fólk, er hvað þetta eru margir. Þetta er bara ökumaður á einum bíl sem tekst að meiða 235 manns. Það er hrikalegt að þetta sé hægt með einum bíl. Hann er ekki að keyra á hraðbraut. Það er svo erfitt að skilja hvað svona maður er að hugsa,“ segir Henning, og bætir við:
„Svo er auðvitað talað um að hann sé læknir og ég er sjálfur læknir og get ekki skilið svona hugsanagang. Læknar hjálpa fólki, þeir myrða það ekki.“
Árásarmaðurinn heitir Taleb Jawad al Abdulmohsen og kemur frá Sádí Arabíu.
Hann kom fyrst til Þýskalands árið 2006 og stundaði þá sérnám í læknanámi og starfaði sem læknir eftir það. Greint hefur verið frá því að Sádi-Arabar hafi ítrekað varað þýsk yfirvöld við því að maðurinn gæti verið hættulegur.
Abdulmohsen hefur á netinu tjáð hatur sitt á íslam, reiði í garð þýskra yfirvalda og stuðning við öfgaskoðanir á „íslamvæðingu“ Evrópu. Hann situr nú í gæsluvarðhaldi og hefur sagt að ástæða árásarinnar sé óánægja með hvernig farið er með sádiarabíska flóttamenn í Þýskalandi.
Henning, sem hefur búið og starfað í Þýskalandi í 30 ár, var akkúrat að ljúka stórri aðgerð þegar árásin átti sér stað. Hann var fyrir algjörlega tilviljun enn á spítalanum þegar tilkynning barst um kvöldmatarleytið að stórslys hefði orðið og að fjölmargir væru særðir. Í fyrstu ríkti þó mikil óvissa um hve margir kæmu.
Hann hafði unnið allan daginn en hélt áfram og var á vaktinni til klukkan þrjú um nóttina. Fleiri voru í þeirri stöðu. „Það reyndu allir að vera sem lengst og gera sem mest. Hjálpa öllu þessu fólki. Við vissum ekkert hvað kæmi. Margir voru líka með innvortis blæðingar,“ segir Henning.
„Það kom kall í gegnum kallkerfið að við ættum að flýta okkur að rýma salinn því það var margt sært fólk á leiðinni.“
Í kjölfarið voru læknar, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk kallað út, því margir voru þegar farnir heim, og segir Henning fólk hafa brugðist ótrúlega skjótt við.
„Í þessum sal þar sem við mættumst öll voru yfir 200 manns sem komu í útkalli. Það var magnað að sjá hvað fólkið var fljótt að koma.“
Komið var með 72 hinna særðu á háskólasjúkrahúsið og þar af voru 27 illa særðir, að sögn Hennings. Bregðast þurfti skjótt við og hafa hröð handtök. Margir þurftu á blóðgjöf að halda og aldrei hafa fleiri mætt í blóðbankann, eins og daginn eftir árásina.
„Þetta var líka svo erfitt fyrir marga því það voru svo mörg börn sem særðust. Það voru 25 eða 26 sem lágu þarna hlið við hlið þegar þau komu og það þurfti að dreifa þeim. Það var mikið grátið og margir foreldrar. Þetta er allt öðruvísi en þegar ástandið er venjulegt.“
Henning segir að í fyrstu hafi margar falsfréttir borist frá slysstað. Meðal annars var talað um skotárás í húsi í nágrenninu og sprengju við bílinn, sem gerði það að verkum að tafir urðu á flutningi særðra á sjúkrahús.
„Fyrir okkur var þetta mjög skrýtið, særða fólkið kom ekki strax á spítalana. Það voru allir tilbúnir en það kom enginn. Það var vegna þess að það þurfti að leita að sprengju og fleira. Svo komu bílarnir einn á fætur öðrum og það gekk mjög hratt fyrir sig að meta hverjir þurftu að fara í aðgerð, sneiðmyndatöku og annað.“
Það hafi verið magnað að upplifa hve vel allir unnu saman í þessum krefjandi aðstæðum.
„Við höfðum aldrei gert æfingu með hvað maður gerir í svona stóru slysi. En þetta tókst vonum framar, ég get ekki sagt annað. Ég var mjög stoltur að sjá hvernig allir gerðu það sem þeir áttu að gera. Við höfðum nógu mörg teymi til að leysa þau vandamál sem komu upp.“
Henning segir þá sem komu á spítalann hafa verið í mjög misjöfnu ástandi, en þangað hafi einnig komið fólk sem ekki var mikið slasað en var í algjöru áfalli.
„Sumt fólk var næstum meðvitundarlaust. Það skipti máli að hér var hægt að fá góða áfallahjálp.“
Mikil reiði og sorg ríkir nú í Magdeburg að sögn Hennings, og andúð gagnvart útlendingum hefur blossað upp sem aldrei fyrr. Fólk láti hatursfull ummæli falla í garð útlendinga á samfélagsmiðlum, og margir tali um að senda þá alla heim.
„En spítalinn okkar myndi til dæmis ekki virka ef við hefðum ekki alla útlendingana sem eru hér. Á minni deild, hjarta- og brjóstholsskurðdeildinni, þá eru 25 læknar og ætli 7 af þeim séu ekki Þjóðverjar. Allir aðrir eru útlendingar, meðal annars frá Sýrlandi og Egyptalandi. Allt fólk sem við þurfum á að halda. Spítalinn virkar ekki nema við höfum þetta fólk.“
Telur Henning að andúð gagnvart útlendingum muni lita komandi kosningabaráttu og að þjóðernisflokkurinn AfD muni nýta sér það óspart.
Hann segir almennt þungt yfir borginni og að margir vilji ekki fara niður í bæ. Fólk kvíði því jafnvel að þurfa þess. Þá sé viðbúið að það verði erfitt fyrir marga að sækja markaðinn á næsta ári. Það geti vakið upp erfiðar tilfinningar.
Á nokkrum stöðum við göngugötuna hefur fólk komið með blóm og bangsa og segir Henning kveikt á kertum um allan bæ. Hann telur að þó nokkur tími muni líða þar til lífið kemst aftur í eðlilegt horf í Magdeburg.
Henning segist hafa verið heppinn að komast út úr bænum rétt fyrir helgi, en hann fór og heimsótti börn sín og barnabörn til Leipzig þar sem hann gat núllstillt sig. „Það var gott að komast frá Magdeburg og gefandi að heimsækja börnin. Sem afi getur þú ekki verið í fýlu innan um lítil börn,“ segir hann léttari í bragði.